Flestir námsmenn hafa kynnst því að vera að kikna undan námsálagi. Þá getur ein versta martröð nemenda verið þegar tvö verkefnaskil eða próf lenda á sama degi.
Nám er 140% vinna miðað við ETCS einingakerfið sem gerir námsálag gríðarlegt. Eins og flestum er kunnugt um getur verið erfitt að gera margt í einu.
Í kennslu er oftast einn kennari fyrir hvert fag en ekki sami einstaklingurinn sem kennir öll fjögur fögin. Er því einkennilegt að einn nemandi eigi að geta farið á dýptina í fjórum til fimm fögum í einu, auk þess að sinna félagslífi, vinnu og áhugamálum.
Til þess að draga úr námsálagi þyrfti að íhuga aðrar leiðir í kennslu.
„Ég get ekki ímyndað mér að þurfa að fara aftur í marga áfanga í einu“
Lena Örvarsdóttir, fyrrum félagsfræðinemi við HÍ, er nú í fjölmiðlafræðinámi við háskólann Lund í Svíþjóð.
Í Svíþjóð er Lena í einum áfanga í einu og fer eftir einingafjölda hversu lengi þeir standa. „Það er alltaf bara 1 áfangi í einu, núna hef ég verið í 15 eininga áfanga og hann var í 2 mánuði.“
Í áfanganum sem Lena var síðast í voru fyrstu fjórar vikurnar bara kennsla og þá lásu nemendur og mættu í tíma. Síðan komu tvö hópaverkefni sem voru undirbúningur fyrir lokaritgerð sem hún hafði tæpar tvær vikur til að skrifa. „Svo kom stór ritgerð sem var mjög intense en það góða var að ég gat bara einbeitt mér að henni allan tímann.“
Lena er ánægð með að geta einbeitt sér að einum áfanga í einu og geta farið síðan í þann næsta. „Maður er orðinn sérfræðingur í einu námskeiði, sem er ótrúlega gott, og svo er það bara búið,“ segir Lena.
Of margir áfangar í einu bitni á námsárangri
Lena segir fyrirkomulagið í Svíþjóð gera nemendum kleift að kafa dýpra í efnið. Þá hefur hún tekið eftir því að allir nemendur eru alltaf vel lesnir fyrir tímann. „Af því að við erum bara í þessum eina áfanga þá eru allir að lesa. Það lesa allir fyrir tímann og vita hvað efnið snýst um.“
Á Íslandi eru nemendur yfirleitt í 30 +/- einingum á önn sem gerir 4-5 áfanga og þurfa nemendur að halda mörgum boltum á lofti í einu. „Á Íslandi eru mörg verkefni í einu þannig maður þarf að velja og hafna hvaða verkefni fær athygli.“
Þegar nemendur þurfa að sinna mörgum áföngum í einu getur það bitnað á námsárangri. „Maður var alltaf að fara í mismunandi áfanga þannig að núna þegar ég hugsa til baka þá fór maður svo grunnt ofan í efnið og ofan í áfangana,“ segir Lena.
Lenu þykir fyrirkomulagið í Svíþjóð vera betra en hér á landi og getur hún ekki ímyndað sér að þurfa að fara aftur í marga áfanga í einu. Að lokum segir Lena: „það er eins og íslenska skólakerfið leyfi manni ekki að ná árangri“ og vísar til þess hve erfitt getur verið að vera í mörgum áföngum í einu.