Fyrirlestrarröð RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum vorið 2023 beinir sjónum sínum að afnýlenduvæðingu. Afnýlenduvæðing í er sett í víðu samhengi við kvenna- og kynjafræði, femínisma og jafnréttismál. Elín Björk Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri RIKK, segir að fyrirlestraröð RIKK sé fyrir löngu orðin hluti af landslagi Háskóla Íslands og er kynnt bæði innan skólans og utan. Fjöldi fólks fylgist með dagskrá RIKK og hádegisfyrirlestraröðum stofnunarinnar. Áhersla er lögð á fjölbreyttar og þverfaglegar rannsóknir sem skoða undirliggjandi hugmyndafræði nýlendu- og heimsvaldastefnu. Fyrirlestrarnir eru haldnir í sal þjóðminjasafnsins í hádeginu á fimmtudögum.
Opnir fyrirlestrar fyrir alla
Ein af burðarstoðunum í starfsemi RIKK var frá upphafi opnir fyrirlestrar. Fljótlega stóð RIKK að reglulegum fyrirlestrum sem voru opnir almenningi. Með fyrirlestrunum er lögð áhersla á að kynna nýjar rannsóknir á sviði kvenna-, kynja- og jafnréttisfræða. Áhersla RIKK er að stuðla og styrkja rannsóknir á fræðasviðinu sést einnig í öðrum viðburðum um ákveðin málefni sem eru ofarlega á baugi í samfélaginu. Þar má sem dæmi taka ráðstefnu um #MeToo og einnig fyrirlestraröðina sem var haldin eftir að stofnunin stóð að útgáfu á tveimur bókum um efnið, sem og nýlega ráðstefnu um réttlæti í kynferðisbrotamálum. Stofnunin skipuleggur einnig pop-up-viðburði, svo sem málþing í tengslum við klaustursmálið: „Minna hot í ár“.
Samstarf við GRÓ jafnréttisskóla
Röð fyrirlestraraðarinar á vormisseri 2022 haldin í samstarfi við jafnréttisskóla GRÓ. Felst samstarfið einkum í því að erlendum sérfræðingum sem kenna við skólann er boðið að halda opinberan fyrirlestur innan raðarinnar og nemendur Jafnréttisskólans sækja þá fyrirlestra sem eru fluttir á ensku og er mæting á fyrirlestrana og umræða um efni þeirra hluti af diplómanámi jafnréttisskólans. Fyrirlestrarröð RIKK á haustmisseri 2023 verður einnig haldin í samstarfi við Jafnréttisskólann (GRÓ GEST). Elín Björk segir að efni fyrirlestraraðanna og sú jafnréttisnálgun og greining á valdatengslum sem þar fer fram eiga erindi við bæði almenning og háskólasamfélagið og þar á meðal þá erlendu nemendur sem stundi diplómanám við Jafnréttisskólann á vori hverju
„Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi“.
Fyrirlestraraðirnar árið 2022 fóru fram undir yfirskriftinni „Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi“. Hinsegin rannsóknir er ört vaxandi fræðasvið hér á landi þar sem sjónum er hvort tveggja beint að tilteknu viðfangsefni, sem getur talist hinsegin í víðum skilningi, og beitingu hinsegin sjónarhorns á grundvelli hinsegin fræða. Hinsegin fræði og kynjafræði eru nátengd baráttu hinsegin fólks og hafa, ásamt henni, haft margvísleg áhrif á tungumál, lagaramma, bókmenntir, listir, hugmyndir og viðhorf, auk samfélagsins sjálfs. Áherslan í fyrirlestraröðinni Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi er lögð á fjölbreyttar og þverfaglegar rannsóknir á hinsegin Íslandi fyrr og nú og gagnvirku sambandi þess við önnur samfélög og menningarsvæði. Stofnunin sendi út kall eftir efni af sem flestum fræðasviðum þar sem fjallað væri um hinsegin hliðar íslensks samfélags, menningar og sögu í alþjóðlegu samhengi. Viðbrögðin við kallinu voru framar björtustu vonum þar sem hægt var að fylla fyrirlestraraðir bæði vor- og haustmisseris með spennandi fyrirlestrum um nýjar rannsóknir á þessu sviði.
Hvað er RIKK og hvaðan kemur stofnunin?
Rannsóknastofa í kvennafræðum, sem síðar varð RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum, var stofnuð árið 1991. Rannsóknastofnunin á rætur sínar að rekja til áttunda áratugarins þegar fræðikonur víða um heim hófu markvissar rannsóknir í kvennafræðum. Íslenskar fræðikonur létu ekki sitt eftir liggja og þegar upp úr 1980 var farið að bjóða upp á námskeið í t.d. kvennabókmenntum og kvennasögu við Háskóla Íslands. Sumarið 1985 var haldin fyrsta ráðstefnan um íslenskar kvennarannsóknir. Að henni stóð hópur kvenna sem hafði um árabil sinnt rannsóknum á þessu sviði. Í kjölfar ráðstefnunnar var stofnaður Áhugahópur um íslenskar kvennarannsóknir en í honum voru konur innan og utan háskólasamfélagsins. Áhugahópurinn stóð fyrir reglulegum fyrirlestrum um kvennarannsóknir, beitti sér fyrir stofnun rannsóknastofu í kvennafræðum og að komið yrði á fót skipulegu námi í kvennafræðum við Háskóla Íslands. Sem fyrr segir varð stofnun rannsóknastofunnar að veruleika árið 1991 og námsbraut í kynjafræðum komin á 1996. Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum hafði um árabil takmarkaða fjárveitingu og gat af þeim sökum aðeins haft starfsmann í hlutastarfi. Engu að síður tókst stofunni að halda úti þéttri dagskrá á hverjum vetri sem samanstóð af hádegisfyrirlestrum, opinberum fyrirlestrum og málstofum, auk útgáfu rita á sviði kvenna- og kynjafræða.
Í gegnum árin hefur sjónum verið beint í meira mæli að valdakerfinu og samfélaginu í heild og þeirri margþættu mismunun sem einstaklingar innan þess verða fyrir. Nýtt nafn stofnunarinnar endurspeglar markmið hennar sem felst í því að flétta saman hefðbundnar kvenna- og kynjarannsóknir og rannsóknir á jafnrétti í víðari skilningi með áherslu á jafnræði, mismun, menningarlega fjölbreytni og samtvinnun.
Hér er hægt að nálgast upptökur af hádegisfyrirlestrum RIKK ásamt öðrum upplýsingum.
Einnig er hægt að fylgjast með RIKK á facebook.