Stjórnmálasálfræðingurinn Bjarki Þór Grönfeldt hélt erindi um incel-hreyfinguna á jafnréttisdögum í vikunni. Incel stendur fyrir involintarily celibate eða þvingað skírlífi. Karlmenn sem tilheyra þessum hópi telja sig eiga rétt á kynlífi og trúa að karlmenn standi höllum fæti í samfélaginu.
Erindi Bjarka fjallaði um rannsókn sem hann og samstarfsfélagar hans eru að vinna að. Rannsókn þeirra varð síðan framlag í keppni á vegum bandaríska sendiráðsins í London sem snerist um hvernig má koma í veg fyrir öfga og hatur á netinu. Framlag Bjarka og félaga hlaut fyrstu verðlaun og vinna þau nú í að þróa verkefnið áfram.
„Það sem við erum að einblína á núna er að búa til tölvuleik sem inngrip sem er hannaður til þess að kenna ungu fólki að bera kennsl á samsæriskenningar. Vegna þess að það sem við komumst að í rannsókninni okkar var hvað samsæriskenningar og samsæriskenndar hugmyndir um konur eru órjúfanlegar frá incel skoðunum,“ segir Bjarki.
Þegar leikurinn hefur verið hannaður tekur við að rannsaka áhrifin, „þetta verður rannsakað með því að fá einhvern tiltekin hóp til að spila leikinn og annan hóp sem spilar hlutlausan leik og kanna síðan hvort þau verði lægri á þessum incel hugmyndum, kvenhatri og eitraðri karlmennsku.“
Byrjaði sem stuðningshópur
Incel er í sinni einföldustu mynd manneskja sem langar að stunda kynlíf en fær ekki tækifæri til þess. Hreyfingin hófst sem stuðningshópur fyrir fólk sem langaði í nánd eða rómantík en gat ekki öðlast það. En þessari hugmynd er síðan rænt af hugmyndafræði sem kallast mannhvelið eða manosphere og er í dag orðið kvenhaturshugmyndafræði sem þrífst á netinu. Fræðimenn hafa furðað sig á auknum vinsældum hreyfingarinnar þar sem hún hefur engan leiðtoga og þetta eru ekki skipulögð samtök.
„Þetta er fyrirbæri sem þarf að taka alvarlega, hryðjuverk og ofbeldisverk hafa verið unnin af mönnum sem vísa í incel-hugmyndafræðina og hafa orðið fyrir áhrifum af henni,“ segir Bjarki um Incel-hreyfinguna sem fer stækkandi.
Bjarki segir í fyrirlestri sínum að samskipti innan þessa samfélags eiga sér stað á spjallborðum en þar er hvatt til ofbeldis og er því mikilvægt að fylgjast með þessum síðum. Spjallþræðirnir einkennast af miklum kvenhatri, þessum mönnum finnst karlmennsku sinni vera ógnað og skrifa þeir mikið um hefndarfantasíur og ofbeldisóra.
Incels eru flestir einangraðir karlmenn á aldrinum 18-25 ára sem búa hjá foreldrum eða einir. Þeir líta á konur sem óæðri verur og nota aldrei orðið kona heldur femoid. Femoid er niðrandi hugtak sem notað er í incel-samfélaginu til að vísa til konu. „Femoid“ kemur frá samdrætti orðsins „kvenkyns“ og „android“ (vélmenni), til að leggja áherslu á meint ískalt eðli kvenna.
Telja aðgang að kynlífi vera mannréttindi
Í þessu samfélagi er mjög mikil áhersla lögð á kynlíf og incels telja kynlíf vera gjaldmiðil og gæði sem þarf að skipta jafnt á milli allra karlmanna. Karlmenn sem tilheyra þessum hópi upplifa fortíðarþrá og lofsyngja tíma í sögunni þar sem konur gátu ekki aflað tekna eða kosið.
Samfélagið stækkaði í faraldrinum en samkvæmt rannsóknum eru flestir meðlimir frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Engar tölur eru þó til um hvað margir meðlimir eru í þessum hópum og ekki vitað hvað margir eru frá Íslandi.
Eitt af því sem kom fram í fyrirlestri Bjarka er að þessir menn telja sig vera fórnarlömb öfugrar nauðgunar vegna þess að þeim er neitað um kynlíf. Þeir trúa á einkvæmi, þvingað hjónaband og lögleiðingu á nauðgunum.
Nánd og samskipti fara fram á netinu
Eitt af því sem hefur sýnt sig í rannsóknum á fólki sem trúir á incel hugmyndafræðina er að sálfræðilegu þarfir þeirra eru uppfylltar með óuppbyggilegum hætti. „Til dæmis félagslegar þarfir eru uppfylltar á netinu en þú átt enga beinlínis vini. Heldur bara á spjallborðum. Þörfin fyrir líkamlega nánd fer einungis fram í gegnum klám,“ segir Bjarki um þessar grunnþarfir en bætir við að alls konar uppbyggilegt sé að finna á netinu „en þeir eru að leitast við að uppfylla allar sínar mannlegu grunnþarfir í gegnum netið og þá er það mikill rauður fáni.“