ChatGPT, nýtt gervigreindarforrit hannað af fyrirtækinu OpenAI, er á allra vitorði þessa daga. Meira að segja háskólarektor vísaði til þessa snjallforrits í ávarpi sínu við brautskráningu kandídata í síðustu viku. Háskólakennarar hafa fyrst og fremst áhyggjur af því hvort og hvernig nemendur komi til með að nota forritið, en ChatGPT er svokallað „skapandi mállíkan‟ sem getur svarað ýmsum spurningum og skrifað jafnvel heilu ritgerðirnar með texta sem byggir á stóru gagnasafni sótt til internetsins. OpenAI opnaði fyrir aðgengi að forritinu í nóvember í fyrra en í janúar voru notendur strax orðnir yfir 100 milljónir.
Á þriðjudaginn var efnt til umræðufundar um gervigreind og háskólakennslu á Háskólatorgi. Hanna Kristín Skaftadóttir adjunkt við Háskólann á Bifröst sagði frá því hvernig hún og kollegar hennar væru í þann mund að birta niðurstöður úr rannsókn á færni ChatGPT í próftöku. Hanna Kristín og félagar mötuðu forritið á spurningum úr ýmsum háskólaprófum og lögðu síðan mat á svörin eins og um hefðbundna nemenda væri að ræða. Niðurstaðan var sú að gervigreindin stóðst prófin ágætlega þótt meðaleinkunn hennar væri nokkuð lægri en meðaleinkunn „mennskra‟ nemenda.
Það varð ljóst á fundinum að sumum kennurum var ekki skemmt og höfðu áhyggjur af svindli og ritstuldi, en í einhverjum tilfellum hefur ChatGPT verið að endurtaka orðrétt úr skrifum manna, en séu svörin síðan notuð af nemendum í verkefnum sínum getur verið um „óafvitandi‟ ritstuld að ræða.
Það ætti reyndar að vera frekar lítið gagn af forritinu fyrir nemendur sem þurfa að skrifa á íslensku enn sem komið er, þar sem ChatGPT hefur ekki náð sérstaklega góðum tökum á því tungumáli, og textar þess á íslensku hljóma gjarnan klaufalegir og ankannalegir. Þar að auki getur reynst hættulegt að treysta um of á gervigreindinni, en það hafa verið mörg dæmi um að forritið gefi upp röng svör jafnvel þó þau séu sett fram af mikilli öryggi og hljómi sannfærandi. Í sumum tilfellum getur það jafnvel skáldað upp nöfn og heimildir sem hvergi eru til, en þetta er vel þekktur galli gervigreindarforrita sem sérfræðingar úr geiranum kalla „ofsjónir‟. Sumir þessara sérfræðinga hafa kallað snjallforritið „slembipáfagaukur‟.
Ástralski þingmaðurinn Julian Hill vakti athygli á dögunum þegar hann flutti ræðu þar sem hann varaði við að „gervigreind, svo sem snjallforrit sem geta samið ritgerðir og útvegað svör, eru að verða aðgengilegri og gera nemendum kleift að ljúka við verkefni og próf án þess að öðlast skilning á viðfangsefninu. Þetta er áhyggjuefni fyrir kennara sem óttast áhrif slíkrar gervigreindar á trúverðugleika menntakerfisins.‟ Þingmaðurinn lét síðan fylgja með að þessi orð voru ekki hans eigin, heldur hafði hann sótt þennan hluta ræðu sinnar til ChatGPT. Í öðrum kafla ræðunnar sem var líka samið af gervigreindinni varaði Hill við að „störf gætu tapast,‟ að gervigreind gæti „viðhaldið ríkjandi fordómum og mismunun,‟ og „gæti verið notuð í annarlegum tilgangi, svo sem í netárásum eða í falsfréttaherferðum‟.
Hill kallaði eftir dýpri umræður um gervigreind, ásamt rannsóknum og alþjóðlegri samvinnu. Reynslan af öðrum tækninýjungum svo sem Facebook eða Google sýnir að oft er þörf á aðhaldi og lagasetningu til að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun á tækninni.
Upptaka af fundinum á Háskólatorgi er að finna hér.
(Fyrirvari: þessi frétt er ekki samin af ChatGPT)