Hin árlega Vísindavaka Rannís var haldin í Laugardalshöll um helgina. Stúdentafréttir fór á staðinn og kynnti sér dagskrána. Á Vísindavöku getur almenningur kynnt sér ýmsar rannsóknir og þróunarstarf vísindafólks sem fram fer í öllum háskólum landsins og víða. Þar er lögð sérstök áhersla á að kynna vísindi fyrir börnum og ungu fólki á lifandi og gagnvirkan hátt.
Vísindavakan er haldin samtímis í 330 borgum í 26 löndum víða um Evrópu undir heitinu Researche´s Night. Í tengslum við Vísindavöku á Íslandi voru haldin Vísindakaffi víða um land alla vikuna.
Viðurkenningar
Á setningu Vísindavöku í Laugardalshöll voru veittar viðurkenningar fyrir framlag til vísindamiðlunar í íslensku samfélagi og að þessu sinni fengu Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands viðurkenningu fyrir sameiginlegt verkefni sem nefnist „Með fróðleik í fararnesti“ Verkefnið hefur staðið yfir síðan árið 2020 og hefur það að markmiði að vekja áhuga á fræðslu og hollri útivist.
Fjöldi sýnenda
Um 30 fyrirtæki og stofnanir tóku þátt í sýningunni í Laugardalshöll og þar mátti sjá marga fjölbreytta sýningarbása. Stærsta svæðið var frá Háskóla Íslands, sem var með 33 rannsóknarverkefni frá fjölbreyttum fræðasviðum. Þar bauðst gestum og gangandi að taka þátt í alls konar tilraunum og rannsóknum.
Þar var meðal annars hægt að heilsa uppá uppstoppaðan björn, teikna á snertiskjá, forrita, breyta koltvísýringi í grjót, prófa hjartahnoð, skoða lífið í sjónum, hitta lifandi maura og fræðast um loftsteina.