Grænir dagar Háskóla Íslands hófust í dag á fyrirlestri frá Heiðu Kristínu Helgadóttur, framkvæmdastjóra Íslenska Sjávarklasans. Þemað í ár er sjálfbærni í hafinu. Í fyrirlestri Heiðu var m.a. fjallað um þróun á nýtingu sjávarfangs og markaðsvæðingu þorsksins í gegnum árin. Þorskurinn hefur lengi verið markaðssettur sem ferskur fiskur, lýsi, unnið gæludýrafóður ásamt einstaka hönnunarvöru með fiskroði. Mikill uppgangur í nýsköpun á undanförnum árum hefur þó opnað fyrir nýjar leiðir til nýtingar á þorsknum fyrir utan þessar sem nefndar eru hér fyrir ofan. Þar má t.a.m. nefna húð og heilsuvörur, kollagen, omega og fitusýrur, roðið er nýtt sem hjálpartæki í sáragræðslu ásamt sífellt fleiri vörum sem einnig eru framleiddar úr fiskroði, meira að segja orkudrykkurinn Collab inniheldur kollagen.
Hlutverk Íslenska Sjávarklasans er að tengja saman fyrirtæki og einstaklinga innan sjávarútvegsins, ásamt því að útvega sprotafyrirtækjum aðstöðu og styrkja tengslanet þeirra. Heiða sagði gestum frá nýju verkefni sem Íslenski Sjávarklasinn er að fara af stað með. Verkefnið kallast Verbúðin og er markmiðið með því að styðja við öfluga frumkvöðla og tengja þá við rótgróin fyrirtæki innan sjávarútvegsins.
Grænir dagar standa yfir frá 27-29 febrúar víðsvegar um háskólasvæðið, dagskránna má finna á heimasíðu Háskólans og má finna upplýsingar um hvern og einn viðburð á Facebook.