Heim Fréttir Lófalestur, hræddir karlmenn og vinstrisinnaðir Íslendingar

Lófalestur, hræddir karlmenn og vinstrisinnaðir Íslendingar

Auglýsing á lófalestri frá Jönu Napoli

Síðustu daga hefur verið boðið upp á lófalestur á Háskólatorgi. Lófalesturinn er ókeypis gegn því að viðkomandi taki þátt í vísindalegri rannsókn. 

Myndlistakonan Jana Napoli frá New Orleans hefur lesið lófa í yfir 60 ár. Hún vinnur nú að rannsókn um hendur fólks á Íslandi og hvernig þær hafa þróast með breyttum lifnaðarháttum í gegnum tíðina. „Hver er munurinn á þér og fólki sem fæddist fyrir seinni heimsstyrjöldina, áður en Ísland fór virkilega að breytast?“ spyr Jana.

Jana segir verkefnið, sem ber nafnið Hands of Iceland, vera unnið í samstarfi við ríkisrekna vísindastofu í New York fylki í Bandaríkjunum. Jana tekur myndir af lófum þeirra sem taka þátt og segir hún þær settar inn í tölvukerfi í fyrrnefndri vísindastofu. Myndirnar væru svo greindar af gervigreind sem leitaði að mynstrum og tengingum. Þegar verkefninu lýkur verði gefin út bók og fái Þjóðskjalasafnið að eiga gögnin.  

Til samanburðar við hendurnar sem hún rannsakar núna segir Jana að til séu þúsundir af handarförum Íslendinga frá 1950. „Þetta er af fólki sem var fætt fyrir stríðið. Þau [handarförin] endurspegla enn þá gamla genasafnið í byggingu handanna,“ segir hún. „Þær eru svo ólíkar höndunum í dag,“ bætir hún við. Þar að auki segir Jana að til séu gifsmót af höndum Íslendinga frá miðri 19. öld. „Napóleon sendi frænda sinn til að uppgötva Norðurlöndin. Hann tók gifsmót af höndum.“

Jana hefur unnið að verkefninu í rúm fimm ár. Á þeim tíma hefur hún ferðast um land allt og safnað gögnum um u.þ.b. 2500 íslenskar hendur. Markmið hennar er að greina í það minnsta 3500 hendur.  

Hún tók sér aðsetur á Háskólatorgi vegna þess að það vantaði þátttakendur á bilinu 18 – 24 ára í rannsóknina. Þeim sem taka þátt í rannsókninni býðst að fá lófalestur frá Jönu Napoli, en það er þó ekki þátttökuskilyrði. 

Menn hræddir við að fá lestur

Eina skilyrðið fyrir þátttöku er að að minnsta kosti annað foreldri þátttakenda þarf að vera íslenskt. Konur hafa sýnt verkefninu mun meiri áhuga en karlar og eru þær því beðnar að taka með sér karlkyns eða kynsegin einstakling til þess að jafna kynjahlutfallið. 

Jana telur ástæðu þess að menn vilji síður taka þátt þá að þeir séu hræddari við að vera særðir. „Þeir vilja ekki vera skammaðir, þeir vilja ekki að ég sjái þá,“ segir hún. „Þegar konur koma með mann með sér, tek ég í höndina á honum og hún er hörð eins og steinn og fingurnir eru krepptir inn, sem segir ekki meiða mig.“ 

Íslendingar meira keltneskir en norrænir

Jana segir hendur af keltneskum uppruna algengari en norrænar meðal Íslendinga. Hún segist sjá á höndum okkar hvort við séum komin af sjómönnum, bændum eða hvort þær henti í fínlegt handverk. Hún segir merkilegt hve margir Íslendingar séu með ráðandi vinstri hendi. Það er hægt að sjá með því að spenna greipar og sjá hvaða þumall er ofan á. 

Jana heldur nú á aðrar slóðir með lófalestur sinn en vonast til að klára verkefnið bráðum. „Ég er næstum áttræð, og það er fólk sem vill skrifa bók [um verkefnið].“