Heim Fréttir Þátttaka í félagslífi bætir félagslega heilsu nemenda

Þátttaka í félagslífi bætir félagslega heilsu nemenda

Mynd: Baldvin Þór Hannesson

,,Við sem nefnd höldum nokkra viðburði á ári og þeir hafa það kannski ekki sem eiginlegt markmið að stuðla að þessu en á þessum viðburðum mætir fólk oft saman og þá styrkjast félagslegu tengslin“. Segir Kristófer Breki Halldórsson,forseti Félagslífs- og Menningarnefndar Háskóla Íslands.

Einmanaleiki og andleg vanlíðan ungs fólks hefur aukist undanfarinn áratug. Til að auka félagslegt heilbrigði stendur nemendum Háskóla Íslands ýmislegt til boða. Þrátt fyrir aukna tækni og notkun á samfélagsmiðlum sem upphaflega voru hannaðir til að styrkja og auka tengsl milli fólks, benda rannsóknir til þess að félagslegu tengslin okkar séu minni en áður. Líkamleg og andleg heilsa er mikilvægur partur heilbrigðis, en annar stór þáttur er félagslegt heilbrigði.

Mynd ©Kristinn Ingvarsson

Viðar Halldórsson, félagsfræðiprófessor við Háskóla Íslands, veltir fyrir sér í hvaða átt Ísland sem samfélag sé að stefna og hvort samfélagið hafi týnt sjálfu sér.

Kristófer Breki telur félagslegt heilbrigði mikilvægt. Þó vissulega sé hægt að mynda tengsl við fólk á netinu og í gegnum samfélagsmiðla, sé ekki eins og að hitta fólk augliti til auglitis. Hann segir félagslíf Háskólans hafa margt upp á að bjóða og þar sem öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Kristófer Breki segir að bara það að mæta í tíma og vera í góðu sambandi við aðra nemendur og kennara skólans, geti styrkt félagslegu heilsu fólks töluvert. Það séu ýmiskonar viðburðir allt skólaárið og hægt er að ganga í nemendafélög. En ef það henti ekki séu ýmsar aðrar leiðir innan skólans þar sem hægt er að kynnast fólki og hafa gaman. Þar megi meðal annars nefna Háskólakórinn, Q-félagið, Háskóladansinn, Stúdentaleikhúsið, Háskólaræktina, Team Spark og margt fleira.

Ljóst er að Háskóli Íslands býður upp á margar leiðir til að upplifa félagslega töfra og styrkja félagslegt heilbrigði. Þegar stúdentar eru sjálfir spurðir, þá er augljóst að félagslíf og vinskapur er það sem þau eru mest spennt fyrir í sinni skólagöngu.