Ríflega hundrað stúdentar tóku þátt í verkfalli í hádeginu í dag til að mótmæla aðgerðarleysi háskólayfirvalda gagnvart þjóðarmorðinu í Palestínu. Stúdentar gengu úr tímum bæði í Háskóla Íslands og í Listaháskóla Íslands. Verkfallið í HÍ var skipulagt af hreyfingunni Stúdentar fyrir Palestínu en IUA students for Palestine stóðu fyrir verkfallinu í LHÍ.
„Þú veist aldrei hversu margir þora að mæta,“ segir Silja Höllu Egilsdóttir, félagi Stúdenta fyrir Palestínu, í viðtali við fréttastofu á vettvangi. „Við vorum ekki að búast við neinu, við vorum ekki með skýra mynd á hver fjöldinn yrði en mér fannst þetta ganga ótrúlega vel.“
Verkfallið hófst klukkan 12 á Háskólatorgi þar sem þrír félagar héldu ræður. Eftir það var ferðinni heitið út og inn í aðalbyggingu Háskólans þar sem hópurinn hrópaði „frjáls Palestína“ og farið var yfir kröfur Stúdenta fyrir Palestínu til skólayfirvalda HÍ.
Kröfur Stúdenta fyrir Palestínu
Kröfurnar eru eftirfarandi:
1. Að Háskóli Íslands og allar stofnanir hans taki skýra og opinbera afstöðu gegn þjóðarmorðinu í Palestínu og menntamorðinu sem á sér stað á Gaza.
2. Að Háskóli Íslands og allar stofnanir hans slíti öllu samstarfi við ísraelska háskóla og tengdar stofnanir og stofni ekki til nýs samstarfs.
3. Að Háskóli Íslands opinberi öll tengsl háskólans og tengdra stofnana við ísraelska háskóla, stofnanir, fyrirtæki og aðra tengda aðila og bindi tafarlaust enda á þau.
4. Að Háskóli Íslands taki virkan þátt í enduruppbyggingu menntakerfisins á Gaza, auki samstarf við palestínska háskóla og fræðafólk og styðji á annan hátt við menntun nemenda á Gaza.
Borði hengdur í aðalbyggingu Háskólans
Hópurinn hengdi borða á handrið á annarri hæð aðalbyggingarinnar sem blasti við þegar gengið var inn. Á honum stóð „Er þjóðarmorð pólitískt álitamál?“ „Jón Atli getur séð þetta þegar hann kemur aftur í vinnuna,“ segir Silja.
Ætlunin var nefnilega að ná á Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands. Hópnum reyndist það hins vegar erfitt. „Hann lét sig hverfa rétt fyrir tólf. Vísvitandi örugglega,“ segir Silja. „Þannig að hann náði því miður ekki að fylgjast með þessu.“
„Ætlið þið að taka þetta niður [borðann] eða á ég að gera það?“ spyr kona, líklegast starfsmaður við skólann, Silju í miðju samtali okkar. „Við ætlum allavega ekki að taka þetta niður,“ svarar Silja.
Uppfært 10.10/kl. 13:27
Fréttamaður hafði samband við skrifstofu rektors og spurði hvers vegna rektor hafi ekki verið á staðnum til að taka á móti stúdentum sem mótmæltu. Þau svör bárust að yfirlýsing frá stúdentum um verkfall hafi verið móttekin en að ekki hafi verið óskað eftir nærveru rektors. Starfsfólk var í hádegishléi á þeim tíma sem verkfallið var.
Mikilvægt að nemendur fái að tjá sig
Hugmyndina að verkfalli átti Steinunn Kristín Guðnadóttir. „Ég náði fólki saman á fyrsta fundinn og svo tókuð þau [aðrir félagsmenn] þetta pínu í sínar hendur og þróuðu þetta áfram,“ segir Steinunn í samtali við fréttastofu. „Þetta ferli er búið að vera mikið samstarf og það hafa allir lagt sitt af mörkum. Það er mikill kjarni í hreyfingunni.“
Steinunn segir verkfallið hafa gengið vonum framar. „Ég fann ekki fyrir neinni andstöðu.“ Segist hún ekki hafa vitað hvernig nemendur og starfsfólk myndi taka verkfallinu. „En okkur var bara leyft að gera okkar, sem er gott. Það er mikilvægt að nemendur fái að tjá sig.“
Á dögunum stóðu Stúdentar fyrir Palestínu fyrir mótmælum gegn kennslu ísraelsks prófessors við Háskóla Íslands. Í aðdraganda verkfallsins sátu félagsmenn hreyfingarinnar á Háskólatorgi og kynntu málstaðinn. Þau dreifðu blöðum með upplýsingum um skólann og tveir félagsmenn, fyrrnefnd Silja Halla Egilsdóttir og Kjartan Sveinn Guðmundsson skrifuðu pistla sem birtir voru á Vísi.is. Einnig Einnig var gerður Facebook viðburður þar sem hátt í 500 manns merktu sig áhugasöm eða ætla að mæta. Þessi undirbúningur hefur borgað sig þar sem fjöldi nemenda mætti á verkfallið auk þess sem fréttastofur RÚV og Stöðvar 2 sendu bæði fréttamenn á staðinn.
Frekari upplýsingar um hreyfinguna og verkfallið má finna á Facebook síðu Stúdenta fyrir Palestínu.