Heim Fréttir Háskólanemar í sjónvarpssal

Háskólanemar í sjónvarpssal

Nemendum í stjórnmálafræði og blaðamennsku við HÍ var boðið að horfa á umræður í sjónvarpssal í þættinum Torgið á RÚV síðastliðinn þriðjudag. Umræðuefnið var áfengissala hér á landi og í pallborði var fólk úr viðskiptalífinu og heilbrigðisgeiranum og einn tónlistarmaður.

RÚV/Mummi Lú

Áfengismenning á Íslandi að breytast

Þau sem gagnrýndu áfengissölu hérlendis mest voru einstaklingar sem tengjast heilbrigðiskerfinu. Mikið var rætt um áfengismenningu á Íslandi og hvernig hún hefur breyst í gegnum tíðina. Samkvæmt þeim er dagdrykkja orðin algengari og áfengisneysla er að verða normalíseruð umfram það sem telst heilbrigt.

Ásamt því er fólk uppteknara af drykkju annarra: „Það er miklu algengara að það séu gerðar athugasemdir við að þú færð þér ekki áfengi“ sagði Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur hjá SÁÁ.

Læknir sem starfar á bráðamóttöku Landspítalans sagði frá álaginu sem heilbrigðiskerfið upplifir vegna slysa og veikinda sem stafa beint af áfengisneyslu.

Neysla áfengis á niðurleið

Þau sem voru mest hlynnt því að leyfa áfengissölu í matvöruverslunum og opna netverslun með áfengi hérlendis voru hins vegar einstaklingar sem tengjast viðskiptalífinu.

Þau telja áfengisneyslu vera á niðurleið og að aukið aðgengi að áfengi myndi ekki ýta undir aukna neyslu.

Skiptar skoðanir

Nemendum sem voru í áhorfendahóp fannst mjög áhugavert og skemmtilegt að sjá hvernig svona þættir eru teknir upp og hvað fer fram bak við tjöldin. Þeim fannst gaman að sjá hvað áhorfendahópur getur gert mikinn mun fyrir þátt eins og Torgið.

Umræðan er hitamál í dag og ríkja skiptar skoðanir meðal nemenda um það eins og í samfélaginu öllu. Sumum nemendum finnst engin ástæða fyrir því að ríkið skuli einoka sölu á áfengi en öðrum finnst ekki skynsamlegt að selja áfengi í matvöruverslunum.

„Í mínu persónulega lífi hef ég fundið fyrir því að það er auðveldara fyrir krakka undir lögaldri að nálgast áfengi á öðrum stöðum en í ríkinu svo ég veit ekki alveg hvað mér finnst um sölu á áfengi í t.d. matvöruverslunum“, sagði Ísabella Sól Ingvarsdóttir, nemandi í blaðamennsku.

Hefði mátt lífga upp á umræðurnar

Í pallborðsumræðunni komu fram góð rök frá báðum hliðum en nemendur höfðu nokkrir þá skoðun að það hefði mátt lífga aðeins upp á umræðurnar. Sumir tjáðu sig um það að hafa misst þráðinn á nokkrum tímapunktum eða að þau hefðu viljað að það væri kafað dýpra í málefni.

„Maður sá alveg að það var ekki hægt að kafa nógu djúpt inn í umræðurnar eins og maður hefði viljað, annars hefði þátturinn örugglega staðið yfir í einhverja klukkutíma“, sagði Heiðrún Jóna Óðinsdóttir, nemandi í blaðamennsku.

Nemendur í áhorfendahóp

Niðurstaðan var að þetta væri flókið mál og ljóst er að skoðanir eru skiptar, ekki einungis meðal þátttakenda þáttarins heldur líka í samfélaginu.

Hægt er að horfa á þáttinn og lesa nánari lýsingu á honum í frétt RÚV.

Torgið er umræðuþáttur sem fer fram í beinni á RÚV. Þar fara fram umræður um ýmisleg málefni og atburði sem eru í gangi í samfélaginu á Íslandi. Út frá þættinum geta vaknað nýjar umræður og sjónarmið.

Önnur málefni sem rætt hefur verið um í þættinum eru til dæmis ofbeldi ungmenna, framtíð Grindavíkur og stytting náms til stúdentsprófs.