Heim Fréttir Frábær Hljómburður hjá bókmenntafræðinemum

Frábær Hljómburður hjá bókmenntafræðinemum

Spennuþrungið en gott andrúmsloft var á barnum Lemmy á Austurstræti en þar var Hljómburður, tónleikar nemendafélags bókmenntanema haldinn með glæsibrag síðastliðið laugardagskvöld. Tónleikarnir er til styrktar útgáfu Leirburðar, tímariti bókmenntafræðinema.

Fimm hljómsveitir stigu á svið og stóðu allar sig mætavel. Kristný Eir var fyrst af þeim og leiddi áheyrendur inn í hugljúfan tónlistarheim. Næst var Moli með sinn hvíta rafmagnsgítar og sitt milda rokk. Á eftir Mola var hljómsveitin Samosa, eins og HAGL sem kom á eftir þeim féllu þau vel inn í umhverfi Lemmy en voru lög þeirra beggja ,,almennilegt rokk“ ef að svo má að orði komast. Kíló rak síðan lestina með rapplögunum sínum. Ágæt mæting var á Lemmy og var nánast fullt út úr dyrum þegar stemningin náði hámarki.

Skipulag og baksviðsvinna

Við innganginn hafði stjórnin komið upp borði með plakati sem útskýrði gang mála. Hægt var að styrkja þau um frjálst framlag í reiðufé, með bankaupplýsingum og á Aur. Stjórnin skiptist á að vakta borðið við innganginn og taka á móti styrktarframlögum. Það er þó margt sem þarf að hafa í huga við skipulagið, Amanda Líf Fritzdóttir ritstýra Leirburðar segir að fyrst þurfti að finna og bóka stað, finna fólk og auglýsa tónleikana. Bætir Arndís María Finnsdóttir forseti stjórnarinnar við að ferlið gekk vel en var einnig erfitt.

Amanda segir einnig að þegar kom að því að velja hljómsveitirnar mátti stjórnin ekki vera vandlát þar sem að það eru ekki margir sem að taka ekkert fyrir að spila og var reitt á vinafólk og tengsl. Á fyrri styrktartónleikum hefur alltaf verið miðasala við inngang staðarins og svarar Amanda þeirri spurningu að hvers vegna var það ekki í þetta skipti þannig að Lemmy var ekki tilbúinn að loka staðnum meðan á tónleikunum stóð.

Amanda segir að það að bjóða fólki að styrkja útgáfu tímaritsins, frekar en að selja miða inn á tónleikana hafi gengið mjög vel. ,,Býður upp á meiri mætingu og stemningu og öll borga það sem þau geta, sum borga mikið hærra upphæð en við leggjum til og önnur minna og það er svo gaman að öll geti hjálpað eins og þau geta án þess að vera í fjárhagslegu stressi.“

Flestir í stjórnninni eru einróma um það að allt heppnaðist betur en þau þorðu að vona enda var mikið stuð og fjör. Útgáfuhóf Leirburðar verður síðan haldið næstkomandi fimmtudag í bókabúðinni Skálda á Vesturgötu 10a.