Heim Fréttir Leirburður mikilvægur vettvangur menningar

Leirburður mikilvægur vettvangur menningar

Katla Tryggvadóttir, Ritstýra Leirburðs

Nýtt tölublað Leirburðar, tímarits bókmenntafræðinema við Háskóla Íslands, kemur út á fimmtudag og útgáfunni verður fagnað í Skáldu, nýju bókabúðinni á Vesturgötu. Blaðið sjálft er samansafn af innsendu efni frá fjölbreyttum hópi fólks bæði innan HÍ og utan sem ritstjórn blaðsins tekur saman. Það eru ljóð, smásögur, pistlar, ljósmyndir og álíka efni sem má sjá í blaðinu.

„Ekki taka nafninu bókstaflega“

Katla Tryggvadóttir, ritstýra Leirburðs skólaárið 2023-24, segir blaðið vera mikilvægan vettvang menningar þar sem þetta sé eins konar „grasrótar concept“ og frábær vettvangur fyrir fólk að birta sitt eigið efni, jafnvel í fyrsta skipti. Koma blaðsins hafi skipt sköpum fyrir bókmenntafræði sem námsgrein þar sem blaðið hafi verið að vekja athygli og ýtt undir aðsókn og virkt félagslífið með ýmsum viðburðum tengt því. Þau hafi m.a. birt verk eftir menntaskólanemendur sem hafa verið að velta fyrir sér hvað þau eigi að gera næst og hafi jafnvel komið  í bókmenntafræðina eftir að hafa tekið þátt í Leirburði. Þó orðið sjálft standi fyrir lélegan skáldskap þá segir Katla Leirburð vera fullan af frábæru efni og að það ríki mikill léttleiki yfir því.

Eldra blað Leirburðar og ljóðabókin Frumburður. Ísabella/Stúdentafréttir

Leirburður, Frumburður, Útburður og Hljómburður

Leirburður reiðir sig að stóru leyti á fjáraflanir. Þau hafa staðið undir viðburðum líkt og fata- og bókamarkaðinum Útburði og seinasta laugardag voru haldnir tónleikar til styrktar blaðinu sem ber nafnið Hljómburður. Þau hafi einnig gefið út ljóðabók undir nafninu Frumburður. Katla segir þau hafa verið að leika sér með orðin „við erum í bókmenntafræði“ sagði hún og hló.

Ritstjórnin velur sjálf hvað birtist í blaðinu og hvað ekki en Katla segir þau fá mikið af innsendu efni. Ákvörðun um hvað sé birt væri tekið í samtali á milli meðlima ritstjórnarinnar. Allir í ritstjórninni lesi allt og ræði á milli sín hvað skuli birta. Þá finnst Kötlu mikilvægt að engum textum sé breytt, þeir séu birtir eins og þeir koma. Hún segir þó stundum ritstjórnina koma með hugmyndir við höfunda hvað gæti gert efnið sterkara, þau geti þá aðstoðað við það en það sé alls ekki nauðsynlegt og þau hætti ekki við að birta neitt.

Höfundar koma úr öllum heimshornum

Þó að blaðið sé á vegum nemenda í HÍ segir Katla þau vera með efni frá fólki m.a. frá Póllandi, Þýskalandi, og Bretlandi og efnið verði birt á því tungumáli sem þau fá það á. Þetta blað geti verið ákveðinn útgangspunktur fyrir unga listamenn en Katla segir að mikilvægt fólk innan bókmenntafræðarinnar hafi verið að skoða blaðið. Sumir séu bara að prófa að birta efni en Katla segir aðra halda áfram og þá sé gaman að geta verið eins konar stökkpallur fyrir þau. Ritstjórnin ráði einnig inn hönnuð sem kemur að öllu tengdu uppsetningu blaðsins og vanalega séu það nemendur í LHÍ sem verða fyrir valinu. Þau fái greitt fyrir verkefnið en ekki síður góð reynsla að fá að hanna blað sem er gefið út. Í ár er Ronja Inari, nemandi í LHÍ, hönnuður blaðsins.

Útgáfuhóf blaðsins verður á fimmtudaginn 17. október næstkomandi. Það er ókeypis inn og veigar verða á staðnum. Þar er einnig hægt að kaupa eintak af blaðinu sjálfu.