Eflaust hafa sumir nemendur Háskóla Íslands rekið sig á auglýsingar frá Porn Addicts Anonymous (P.A.A.) á veggjum skólans. P.A.A. eru samtök sem aðstoða einstaklinga sem eiga við klámfíkn að stríða, samtökin halda úti nýliðafundum einu sinni í viku.
Fyrsta sérhæfða úrræðið fyrir klámfíkla á Íslandi
Samtökin P.A.A. voru stofnuð fyrir um hálfu ári síðan en starfaði áður undir sama hatti og S.L.A.A (Sex And Love Addicts Anonymous), sem eru samtök sem huga að aðilum með ástar- og kynlífsfíkn. Stúdentafréttir ræddi nánar um starfsemi samtakanna við Andra, sem er 12. spors fulltrúi P.A.A.
Trúnaðar og nafnleyndar er gætt í P.A.A. líkt og í öðrum 12 spora samtökum og kemur Andri þvi hvorki fram í mynd né undir fullu nafni.
,,Ástæðan fyrir stofnun P.A.A. er að beina þarf fullri athygli að klámfíkn. Í S.L.A.A. samtökunum er athyglinni beint að mörgum sviðum með fjölda undirhópa. Margir leituðu til S.L.A.A. vegna klámfíknar en fundu ekki lausn í þeim samtökum. Þar af leiðandi var þessi tilraun gerð að stofna P.A.A. og hefur það gengið vel,” segir Andri.
Hvað er Klámfíkn?
Samtökin skilgreinir að klámfíkn sé til staðar ef viðkomandi hefur ekki stjórn á því hvenær hann horfir á klám eða hversu mikið hann horfir á klám. Fíknin getur haft veruleg neikvæð áhrif á líf einstaklings, þar má nefna dæmi um áhrif á sambönd, vinnu, samskipti og andlegan líðan.
Svipar til AA funda
Porn Addicts Anonymous eru alþjóðleg samtök sem vinna eftir 12 spora kerfinu, líkt og A.A. samtökin. Andri segir fundina svipa til A.A. funda enda er notast við sama fundarform. Munurinn liggi þó í umfjöllunarefni fundanna og sérfræðiþekkingu.
Meira feimnismál hjá konum
Strákar eru mun líklegri að skoða klám frekar en stelpur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Menntavísindastofnunar um áhorf klám á meðal barna og ungmenna. Strákar á framhaldsskólaaldri eru tvöfalt líklegri að skoða klám frekar en stelpur. Andri segir þó að konur glími líka við klámfíkn. Þó að klámfíkn sé mikið feimnismál hjá körlum sé það enn meira hjá konum.
,,Klámfíkn er mikið feimnismál en er það meira hjá kvenmönnum frekar en karlmönnum. Við erum þó að fá konur til okkar nú í ríkara mæli. En það virðist vera mikil meiri skömm og leynd yfir klámfíkn hjá konum. Þær halda gjarnan að þær séu dæmdar af kynsystrum sínum. Eins og staðan er núna er töluverður meirihluti sem sækir fundina karlmenn en við vonum að það breytist.”
Klámáhorf barna minnkað
Í skýrslu Menntavísindastofnunar kemur fram að áhorf barna og ungmenna á klámi hefur minnkað frá árinu 2021. Eldri ungmenni telja klámáhorf hafa neikvæð áhrif á framkomu og samskipti fólks hvert við annað. Yngri þátttakendur í könnun Menntavísindastofnunar telja félagslegan þrýsting frá nærumhverfi sínu leiða til áhorfs á klám.