Heim Fréttir Hver er að horfa? 104 myndavélar vakta Háskóla Íslands

Hver er að horfa? 104 myndavélar vakta Háskóla Íslands

Rafræn vöktun á almannafæri er vaxandi hluti öryggiskerfa víða um heim og Háskóli Íslands er þar engin undantekning. Víðtæk notkun öryggismyndavéla á háskólasvæðinu hefur vakið athygli, bæði í tengslum við persónuvernd og öryggismál. Myndavélar gegna mikilvægu hlutverki, en hvernig er þeim stjórnað og hver hefur aðgang að upptökunum?

Vöktun, en ekki eftirlit

Þessar myndavélar teljast ekki til eftirlits. Myndefnið er einungis skoðað ef eitthvað óvænt kemur upp og ef það getur nýst til að upplýsa um málsatvik. Samkvæmt Birni Auðuni Magnússyni, deildarstjóra fasteignaumsjónar Háskóla Íslands, hefur aðeins hann einn aðgang að öllum upptökum. „Ég einn hef aðgang að öllum upptökum, en í íþróttahúsinu er rauntímaaðgangur að myndavélum. Ef eitthvað kemur upp er myndefni flett upp, en annars ekki“ segir Björn. Upptökur eru að jafnaði geymdar í 30 daga, nema sérstök atvik kalli á lengri geymslu.

Á háskólasvæðinu eru um 104 myndavélar sem vakta einna helst alla innganga bygginga á svæðinu og þó nokkur útisvæði. Því miður eru þó engar myndavélar sem vakta bílastæðin svo ef einstaklingur lendir í tjóni þar þá mun vöktunin ekki koma honum að gagni.  

Breytingar á merkingum og sekt frá Persónuvernd

Á fyrri hluta þessa árs var farið í breytingar á öllum merkingum vegna rafrænnar vöktunar á háskólasvæðinu. Þessar breytingar má rekja til kvörtunar sem barst Persónuvernd árið 2021. Í apríl 2023 framkvæmdi Persónuvernd vettvangskönnun og lagði 1,5 milljóna króna sekt á Háskóla Íslands vegna ágalla á vöktunarmálum.

Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors og persónuverndarfulltrúi HÍ

Í kjölfar sektarinnar fylgdu leiðbeiningar frá Persónuvernd um úrbætur sem Háskóli Íslands þurfti að fylgja. Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors og persónuverndarfulltrúi HÍ, segir að tekið hafi verið mið af leiðbeiningum Persónuverndar. „Við breyttum merkingum og settum þær upp víðar. Þá sáum við til þess að merkingar væru ekki innan sjónsviðs myndavélanna. Fólk þarf að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort það vilji vera innan vöktunarsvæðis“ útskýrir Magnús.

Persónuvernd og rafræn vöktun

Samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þarf rafræn vöktun á almannafæri að vera skýrt merkt, svo fólk viti þegar það er á vöktunarsvæði og hver sé ábyrgur fyrir vinnslu myndefnisins. Mikilvægt er að einstaklingar geti tekið upplýsta ákvörðun um dvöl sína innan slíks svæðis, sérstaklega í ljósi þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað í notkun vöktunarbúnaðar á almannafæri.

Þótt öryggismyndavélar séu óumdeilanlega mikilvægur þáttur í að auka öryggi á háskólasvæðinu, vekja þær einnig spurningar um friðhelgi einkalífs. Með auknu öryggiseftirliti á almannafæri er mikilvægt að vandað sé til verka í vinnslu persónuupplýsinga og tryggja þarf að réttindi nemenda og starfsmanna séu virt.