Blaðamaður sat og beið eftir viðmælanda sínum á dögunum á Háskólatorgi. Hjarta Háskóla Íslands er það stundum kallað en viðmælandinn barðist einmitt fyrir að slíkt yrði byggt á háskólaárum sínum í stúdentapólitíkinni. Að loknu námi leiddist viðmælandinn rakleiðis út í stjórnmálin, starfaði við þau í 22 ár, meðal annars sem einn vinsælasti forsætisráðherra sögunnar eða lím ríkisstjórnarinnar sem nýlega er sprungin.
Mætt aftur í Háskóla Íslands
Katrín Jakobsdóttir þaut inn á Háskólatorg um leið og fundur hennar við blaðamann átti að hefjast. Hún hengdi kápuna sína á stólbakið, fékk sér sæti og viðurkenndi að þrátt fyrir að vera stödd á ákveðnum krossgötum í lífinu hafi hún eiginlega aldrei verið uppteknari. Að fundi með blaðamanni loknum lá leið hennar í aðalbyggingu Háskóla Íslands á fund Háskólaráðs en Katrín tók sæti þar fyrr í haust. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem hún situr í ráðinu.
Ung og efnileg Katrín Jakobsdóttir stundaði nám við Háskóla Íslands. Hún byrjaði í frönskunámi og stefndi jafnvel á að flytja til Frakklands. „Svo bara gerist það einhvern veginn að maður verður ástfanginn af einhverjum manni og verður bara áfram á Íslandi” segir hún brosandi en bætir því svo við að hún hafi líka fundið að hana langaði svakalega mikið að læra íslensku en hún hafi ekki viljað gera það í byrjun vegna þess að bróðir hennar hefði lært íslensku. „Svo fann ég mig bara algjörlega” segir Katrín og hún kláraði BA próf árið 1999 og meistarapróf árið 2004.
Hluta háskólaára Katrínar tók hún virkan þátt í stúdentapólitík fyrir Röskvu, bæði í háskólaráði og stúdentaráði. Katrín segir það klárlega hafa leitt hana út í stjórnmálin.
Úr borgarpólitík í ríkisstjórn á versta tíma lýðveldissögunnar
Árið 2002 fer Katrín í framboð fyrir Reykjavíkurlistann, sameiginlegt framboð vinstrimanna í Reykjavíkurborg. Hún var varaborgarfulltrúi en segist samt hafa tekið rosalega mikinn þátt og fundist þetta alveg geggjað. „Ég hef alltaf tekið þátt af öllu lífi og sál í því sem ég geri. Það er ekkert eitthvað hálfkák“ segir hún. Katrín segir borgarpólitíkina lýsa sér þannig að hlutirnir gátu gerst dálítið hratt. „Þá gat maður bara tekið einhverja ákvörðun um eitthvað sem maður vildi gera og það bara gerðist innan árs. Svo kynnist maður landsmálapólitíkinni en hún er öll þyngri í vöfum og allt tekur lengri tíma“ segir Katrín. „Mér hefur þó alltaf fundist gaman í öllum hlutverkum sem ég hef gegnt. Bæði að vera formaður flokks í stjórnarandstöðu því þá fær maður útrás fyrir spennufíknina en líka að vera í ríkisstjórn.“
Fyrsta hlutverk Katrínar í ríkisstjórn var árið 2009 og gegndi hún embætti menntamálaráðherra. Katrín segist hafa lært rosalega mikið á þeim tíma því hún hafi verið svo ung en líka vegna þess að það hafi verið rosalega erfiður tími í ríkisfjármálum. „Menntamál er málaflokkur sem ég brenn fyrir og fannst mér þetta því ótrúlega mikilvægt starf. Ég verð samt menntamálaráðherra á um það bil versta mögulega tíma í lýðveldissögunni, eftir hrun. Ég viðurkenni það að ég hugsaði oft hvernig á maður að geta höndlað það að vera ráðherra fyrir málaflokk sem maður elskar og geta ekki sagt já við neinu en maður reyndi að gera það eins vel og hægt var.”
Krefjandi ár sem forsætisráðherra í heimsfaraldri og náttúruhamförum
Katrín sat í ríkisstjórn sem mennta- og menningarmálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda frá 2009–2013. Árið 2017 varð Katrín svo forsætisráðherra. „Það er eitthvað sem marga stjórnmálamenn dreymir um að verða“ segir hún. Katrín segir ríkisstjórnina hafa verið óvenjulega en ferlið hafa verið lærdómsríkt.
Það erfiðasta á ferli hennar segir hún líklega hafa verið heimsfaraldur. „Núna þegar ég lít til baka hugsa ég bara var þetta draumur í tvö ár? Það var bara ekkert annað sem komst að í hausnum á manni“ tjáir hún blaðamanni og nefnir svo líka öll eldgosin, skriðuföllin og allar þær náttúruhamfarir sem hafa dunið á undanfarin ár.
Ætlaði að vera átta ár á þingi en var í sautján
Í vor hætti Katrín skyndilega í pólitík og bauð sig fram til forseta Íslands. Katrín segist hafa vitað það að hún ætlaði að hætta þegar kjörtímabilinu myndi ljúka. „Ég fann það að mér fannst ég bara búin að gera allt sem ég gæti gert“ segir hún en hún ætlaði að vera átta ár á þingi en endaði á því að vera í sautján. Hún segir að margir hafi hvatt hana til að fara í framboð og hún hafi ákveðið að henda sér í það.
„Það skemmtilegasta við framboðið var að fara um landið, hitta fólk og að tala við það um samfélagið. Ég fann það næstum áþreifanlega hvað það er margt frábært á Íslandi en líka hvað það er rosaleg spenna og streita sem er einkenni nútímasamfélaga, ekki bara á Íslandi. Ég talaði líka svolítið um íslenska tungu í framboðinu og þá stöðu sem hún er í vegna þess að við sem erum með íslensku að móðurmáli erum stöðugt í erlendu málaumhverfi í gegnum símann okkar.“
Þótt Katrín hafi ekki náð sínu markmiði segist hún ekki hafa séð eftir því að fara fram. Hún hafi áttaði sig á því að hana langaði að vinna að og beita sér fyrir þessum málefnum.
Ræktar sjálfa sig
Katrín játar að líf hennar sé mjög breytt. „Venjulegur dagur hjá mér var þannig að maður kom í vinnuna snemma morguns og svo var það yfirleitt bara fundaröð. Oft ráðherrafundir og ríkisstjórnarfundir en líka að taka á móti fólki með ýmis erindi. Svo mætti maður í þingið til að svara fyrirspurnum, mæla fyrir málum og svo sinnti maður flokksstarfinu sínu. Það má segja að alla daga hafi verið dagskrá frá morgni til kvölds.“
Hún segir það hafa verið mikil viðbrigði að fara út úr þessu umhverfi sem hún hafði verið í öll sín fullorðinsár. „Margir spyrja mig hvort ég sé ekki bara að taka því rólega. En tilhneiging manns er að hafa mikið fyrir stafni þannig að ég hef verið að gera hluti sem ég hafði ekki gefið mér tíma í. Ég er byrjuð í líkamsrækt og mér finnst bara erfitt að segja frá því vegna þess að ég hef ekki farið í líkamsrækt í tuttugu og eitthvað ár“ segir hún og hlær.
Smám saman að taka að sér fleiri verkefni
Katrín segist vera að taka að sér fleiri og fleiri verkefni. Hún stýrði til að mynda menntaþingi í lok september, ávarpaði viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar, sat á Hringborði Norðurslóða í Hörpu og tók þátt í ráðstefnu í Columbia háskóla í Bandaríkjunum fyrir skemmstu.
Þegar blaðamaður spyr Katrínu hvort hún hafi hugsað sér að setjast aftur að skriftum segir hún þau Ragnar Jónasson hafa fengið fjöldann allan af áskorunum um framhald glæpasögunnar Reykjavík og að það sé aldrei að vita. „En ég lofa engu“ bætir hún við. „Við verðum að sjá hvort andinn kemur yfir okkur. Ég hef líka þann draum að skrifa sjálf og ekkert endilega glæpasögu.“
Svo situr Katrín auðvitað líka í Háskólaráði sem fyrr segir. „Ég var náttúrulega í háskólaráði fyrir 25 árum. Þannig nú er maður búinn að fara fullan hring. Maður er kominn aftur í það sem maður brennur fyrir“ tjáir hún blaðamanni full eftirvæntingar. Katrín segir háskólaráð vera ótrúlega mikilvæga stofnun fyrir íslenskt samfélag og ætlar að gera allt sem hún getur til að styðja við hana. „Það er svo ótrúlega margt sem mér finnst spennandi í kringum menntun og kennslu“ heldur hún áfram. Katrín segir áhugann sérstaklega mikinn núna þar sem það séu svo miklar samfélagsbreytingar til dæmis með tilkomu gervigreindarinnar. „Þú gætir örugglega beðið gervigreind að skrifa þetta viðtal fyrir þig. En það væri reyndar kannski pínu erfitt fyrir hana því ég hef ekki farið í nein viðtöl eftir að ég hætti“ segir hún og hlær.
Vill ekki tjá sig um stjórnarslitin fyrr en eftir kosningar
Viðtal þetta var tekið áður en ríkisstjórnin, sem Katrín leiddi þangað til hún fór í forsetaframboð, sprakk. Katrín ákvað að fara í viðtalið á þeim forsendum að rætt yrði um líf hennar og tengingu við Háskóla Íslands en ekki um pólitík. Þegar blaðamaður heyrði í henni til að athuga hvort hún myndi vilja tjá sig um stöðu mála svaraði hún á eftirfarandi máta: „Ég hef nú ekki hugsað mér að fara í nein pólitísk viðtöl fyrr en eftir þessar kosningar og það sama á við um alla miðla hvað það varðar.“