Mótmæli brutust út á kosningafundi um utanríkis- og varnarmál í Veröld – húsi Vigdísar þann 14. nóvember. Mótmælin snerust um aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda á Gasa og sögðu mótmælendur ríkisstjórn Íslands vera samseka um þjóðarmorð í Palestínu.
Stór málaflokkur fyrirferðarlítill í kosningabaráttu
Kosningafundurinn var haldinn af Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Varðbergi – samtökum um vestræna samvinnu og alþjóðamál, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands og Félagi stjórnmálafræðinga. Umræðuefnið var utanríkis- og varnarmál en sá málaflokkur hefur verið fyrirferðarlítill hjá stjórnmálaflokkum landsins í kosningabaráttunni. Á heimasíðu Háskóla Íslands kom fram að efnt væri til fundarins til að gefa kjósendum skýra mynd af utanríkisstefnu flokkanna á umbrotatímum í alþjóðasamfélaginu.
Fundinn sátu fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi kosningum. Fundarstjórar voru þau Bogi Ágústsson, fréttamaður RÚV, og Rakel Þorbergsdóttir, fyrrverandi fréttastjóri RÚV.
„Þið eruð samsek“
Þegar fundurinn hófst komu mótmælendur sér fyrir í salnum og hófust handa eftir að fyrsta spurning til fulltrúa flokkana var lögð fram. Bogi Ágústsson tók stjórn á aðstæðunum og gaf mótmælendum hálfa mínútu til að koma sínu á framfæri. Myndband af hluta mótmælanna má sjá hér að neðan.
Fundarstjórar spurðu hvort mótmælendur hefðu áhuga á að heyra hvað fulltrúarnir hefðu að segja um málið en svo var ekki. Mótmælin héldu áfram í um það bil fimm mínútur þangað til mótmælendur voru beðnir að yfirgefa salinn svo fundurinn gæti hafist.
Listakonan Magga Stína fór fremst í flokki í mótmælunum og var hún síðust til að yfirgefa salinn og sagði um leið „Þið eruð samsek í þjóðarmorði. Samsek. Skiljiði það? Mér er alvara, okkur er alvara, okkur mun vera alvara og við munum aldrei hætta. Þið eruð samsek. Njótiði fundarins.“
Viðbrögð fulltrúa við mótmælum
Fulltrúar stjórnmálaflokkanna tjáðu sig ekki sérstaklega um mótmælin sjálf nema Sigríður Á. Andersen fyrir hönd Miðflokksins. Hún sagði þau endurspegla ákveðna ógn gagnvart umræðu og það vera vont ef ákveðinn hópur telji sig þurfa að öskra sín mál og sé ekki tilbúinn að taka þátt í málefnalegri umræðu.
Fulltrúarnir tjáðu sig hins vegar allir um ástandið á Gasa og voru sammála um það að Ísland ætti að tala fyrir friði og kalla eftir vopnahléi fyrir botni Miðjarðarhafs.