Heim Fréttir Dýrara fyrir nemendur utan af landi að mennta sig

Dýrara fyrir nemendur utan af landi að mennta sig

Tillaga Stúdentaráðs HÍ um að þau skuli beita sér fyrir því að inntökupróf í heilbrigðisgreinum verði í boði víðar en í Reykjavík var samþykkt nú á dögunum. Nú er fyrirkomulag prófanna að allir próftakar skuli mæta til Reykjavíkur, sama hvar á landinu þeir búa. Þetta stuðlar að ójöfnuði nemenda af höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem koma af landsbyggðinni. Samþykkt Stúdentaráðs þýðir ekki að nú verði próftaka í boði á fleiri stöðum en gæti verið fyrsta skrefið í áttina að því.

Jöfn tækifæri til náms óháð búsetu er lykilatriði til að tryggja jöfnuð í samfélaginu.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður, skrifaði nýlega pistil á Vísi um að nýta ætti tæknina sem þegar er til staðar til þess að bjóða upp á inntökupróf í heilbrigðisgreinum utan höfuðborgarsvæðisins. Dæmi sé um að veðurfar hafi skapað hindranir fyrir nemendur sem þurftu að sækja suður í inntökupróf sem Ingibjörg sagði vera óásættanlegt. Einnig fylgi gríðarlegur ferðakostnaður sem hafi áhrif á nemendur og fjölskyldur þeirra.

Á Íslandi eru sjö starfandi háskólar, Háskóli Íslands er stærstur þeirra með tilliti til nemendafjölda og námsframboðs. Ýmsar námsbrautir eru aðeins í boði í háskólum á höfuðborgarsvæðinu eins og verkfræðinám sem er einungis í boði í Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur.

Geta ekki búið í foreldrahúsum

Blaðamaður gerði óformlega könnun meðal 43 háskólanema af landsbyggðinni sem og höfuðborgarsvæðinu sem sækja háskólanám í Reykjavík. Niðurstöður sýna ekki bara gríðarlegan mun á kostnaði við að stunda nám heldur einnig að nemendur utan af landi telja sig vera verr sett heldur en fólk frá höfuðborgarsvæðinu að námi loknu. Flestir nefna hærri framfærslukostnað við að búa ekki heima og geti þá ekki sparað pening. Einn þátttakandi könnuninnar orðaði það svo „Ef ég gæti lært heima námið sem ég er í þá gæti ég búið hjá foreldrum, safnað meiri pening og jafnvel fjárfest í íbúð.“ Aðrir nemendur nefna háar skuldir vegna námslána og einn nemandi í Listaháskólanum segist ekki koma inn með sömu þekkingu og tengingar og aðrir.

Þemun sem koma í ljós eru þar að auki að nemendur eru ekki einungis að velta fyrir sér peningalegri stöðu heldur einnig þeim verkefnum sem fylgja því að búa einir, langt frá heimabyggð. „Það er svo mikið öryggi að vera heima, ekki endilega bara öryggi tengt peningum heldur öryggi tengt því að vera í kringum fjölskylduna sína. Það er ógeðslega erfitt að búa langt í burtu og það eru ekkert allir sem vilja flytja, en þurfa þess bara út af því að eina námið sem þau vilja læra er fyrir sunnan.“ Sagði Ester Helga Þóroddsdóttir, nemandi í heilbrigðisverkfræði í Háskólanum í Reykjavík.

Undanfarin ár hefur áhersla verið lögð á að gera nám aðgengilegra með fjarnámi en námsframboð er töluvert meira á höfuðborgarsvæðinu. Í könnuninni voru 87,5% svarenda af landsbyggðinni sem sögðu nám sitt vera óaðgengilegt í heimabyggð að fjarnámi meðtöldu. Auk þess hentar fjarnám ekki öllum, það er bæði félagslega einangrandi og getur reynst erfitt fyrir þau sem eru með námsörðugleika.

Kostnaður við að ferðast heim á hverju námsári telst inn í þá upphæð sem aðeins nemendur af landsbyggðinni þurfa að standa straum af. Áætlaður ferðakostnaður nemenda við að fara heim telst frá núll krónum upp í 220 þúsund krónur á hverju námsári, meðaltal er 83.260 kr.

Nú er jöfnunarstyrkur í boði fyrir framhaldsskólanema sem stunda nám a.m.k. 30 km frá lögheimili sínu og þá sem keyra daglega í skóla sem er ekki í nágrenni lögheimilis. Í stefnu mennta- og barnamálaráðuneytisins kemur fram að búseta eigi ekki að hafa áhrif á möguleika til náms. Nemendur telja að ef námsstyrkir líkum þeim sem eru í boði á Norðurlöndunum væru í boði hér á landi myndi það brúa bilið á milli nemenda af landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.

Arðbær fjárfesting sem stuðlar að jafnrétti kynjanna

Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru árlegar meðaltekjur kvenna í Reykjavík 877 þúsund krónum hærri en kvenna á Akureyri á meðan það munar aðeins 53 þúsund krónum á árlegum meðaltekjum karla, Akureyringum í hag. Samkvæmt tölum Byggðastofnunar frá árinu 2016 hafa þá 38% íbúa á höfuðborgarsvæðinu lokið háskólaprófi á móti 21-23% íbúa í flestum öðrum landshlutum.

Ingibjörg Isaksen nefnir í grein sinni að bjóða upp á próftöku annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu krefjist aukins kostnaðar og vinnu en að það væri ekki bara arðbær fjárfesting til að tryggja jöfn tækifæri heldur sé það einnig spurning um jafnræði kynjanna.