Ekki er vitað hvenær niðurstöður áfrýjunarnefndar Hugverkastofu Evrópusambandsins liggja fyrir um ógildingu orðmerkisins Iceland sem Evrópusambandsskráningu, en giskað er á að þær liggi fyrir öðru hvorum megin við áramót. Þetta kom fram á fyrsta viðburði skólaársins hjá Viðskiptafræðideild sem fór fram þann 27. september síðastliðinn.
„…ef málið tapast þá á IFL orðmerkið Iceland skráð í öllu Evrópusambandinu fyrir allar þessar vörur og þjónustu og þeir geta þá gert athugasemdir við athafnir íslenskra aðila á þeim markaði,“ sagði lögfræðingurinn Ásdís Magnúsdóttir er hún undirstrikaði mikilvægi þeirrar ákvörðunar sem áfrýjunarnefndin þarf að taka. Munnlegur málflutningur fór fram í september í máli íslenska ríkisins gegn bresku verslunarkeðjunni Iceland.
Viðfangsefni fundarins sem haldinn var í stofu H-101 voru vörumerki og hugverkaréttindi og tóku til máls dr. Friðrik Larsen, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Ásdís Magnúsdóttir, lögfræðingur og aðjúnkt við Lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Vildu einkarétt á orðinu Iceland
Fundurinn byrjaði á stuttum fyrirlestri Friðriks þar sem farið var yfir hvað vörumerki og hugverkaréttindi eru. Eftir fyrirlestur Friðriks var komið að Ásdísi Magnúsdóttur og snerist hennar fyrirlestur að mestu leyti um mál íslenska ríkisins gegn verslunarkeðjunni Iceland. Rifjaði Ásdís upp forsögu málsins og kom t.d. fram að breska verslunarkeðjan sem er í eigu fyrirtækisins Iceland Foods Limited (IFL) hefur verið rekin allt frá árinu 1970 og nafnið Iceland upprunalega útfrá því komið að mikla áherslu var lagt á að selja frosnar matvörur. Samkvæmt Ásdísi var það árið 2002 þegar IFL fór að færa út kvíarnar og lagði inn umsókn um skráningu orðmerkisins Iceland til að fá einkarétt á orðinu en fram hafði komið í fyrirlestri Friðriks að orðmerki er í raun ein af mörgum tegundum vörumerkja. Vildi þannig IFL fá einkarétt á orðinu fyrir allskyns vörur sínar og þjónustu í öllum löndum Evrópusambandsins og var sú umsókn samþykkt af Evrópusambandinu. Gerði það IFL kleift að geta haft afskipti af íslenskum fyrirtækjum sem myndu nota orðið Iceland í kringum vörur sínar þegar kæmi að þjónustu innan landa Evrópusambandsins. Árið 2016 greip íslenska ríkið til aðgerða ásamt Íslandsstofu og Samtökum atvinnulífsins og lögðu inn ógildingu gegn þessari skráningu m.a. á þeim forsendum að Ísland væri vel þekkt land innan Evrópu og að vörur sem kæmu þaðan ættu að fá að innihalda orðmerkið Iceland án vandkvæða. Héldu þau rök grundvelli og var orðmerkisskráningin ógild árið 2019 fyrir allt Evrópusambandið. Þeirri ákvörðun var áfrýjað af IFL sem leiðir okkur að hinum fyrrnefnda málflutningi sem haldinn var nú í september fyrir áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins en þar tók til að mynda fyrrnefnd Ásdís Magnúsdóttir þátt í málflutningnum.