Frumvarp um afnám tekjutengingar námslána var á dögunum endurflutt óbreytt frá síðasta þingári. Með breytingunni yrði frítekjumark námsmanna afnumið að fullu, ásamt því að skerðing á námslánum vegna tekna námsmanna verði felld niður.
Við flutning frumvarpsins á síðasta þingári bárust umsagnir frá Landssamtökum íslenskra stúdenta og Stúdentaráði Háskóla Íslands, þar sem bæði félög sammæltust um að fara ætti varlega að því að afnema frítekjumarkið að fullu. Hins vegar ætti að hækka frítekjumarkið til muna, sérstaklega í ljósi þess að með grunnframfærslu námslána nái fáir námsmenn að framfleyta sér. Þyrftu margir því að vinna með námi með þeim afleiðingum að námslán skerðast vegna lágs frítekjumarks.
Bæði félög lögðu áherslu á að afnám frítekjumarksins gæti fjölgað lánþegum sem myndi í kjölfarið draga úr hlutverki Menntasjóðs námsmanna hvað varðar að jafna stöðu íslenskra námsmanna. Samkvæmt umsögnum beggja félaga geta fleiri lántökur leitt af sér lægri lán fyrir hvern og einn. Stúdentaráð benti einnig sérstaklega á að samkvæmt fjárlögum þingársins 2021-2022 var gert ráð fyrir lækkun framlags til Menntasjóðsins. Því sé hætta á því að fjármagn til lánveitinga sé ekki nóg ef námsmönnum er kleift að taka fullt námslán óháð tekjum. Í fjárlögum fyrir árið 2023 er hins vegar gert ráð fyrir því að framlag til Menntasjóðsins hækkað um 477 milljónir króna frá árinu áður, fer úr 5.915 milljónum upp í 6.392 milljónir.
Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, endurflutti frumvarpið sem nú bíður 1. umræðu en er enn ekki komið á dagskrá. Hægt er að fylgjast með stöðu mála á vef Alþingis, undir flokknum Þingmálalistar.