36 söfn á höfuðborgarsvæðinu verða með gjaldfrjálsar sýningar og dagskrá á föstudaginn. Þetta er vinsæll hluti af Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar sem stendur yfir 7. – 9. febrúar. Viðburðurinn ber nafnið Safnanótt og er tilgangur samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg að lífga upp á borgarlífið á dimmustu vetrarmánuðunum með því að tengja saman ólíka menningarlega þætti.
![](https://studentafrettir.hi.is/wp-content/uploads/2025/02/IMG_9188-1024x768.jpeg)
Tvö söfn á háskólasvæðinu taka þátt, bæði Árnastofnun sem er í húsi Eddu og Þjóðminjasafnið.
Árnastofnun verður með fjölbreytta dagskrá. Þar verður til dæmis hægt að fá lestur í tarot-spil goðafræðinnar, fólki verður kleift að senda póstkort með afmæliskveðjum til Nýja Íslands sem er að verða 150 ára, margir örfyrirlestrar verða í boði, og sýningin Heimur í orðum verður opin.
Þjóðminjasafnið verður með fjölbreytta dagskrá sem tengist skáldskap en þar er hægt að sækja kvöldvöku á vegum Kvæðamannafélagsins Iðunnar, ljóðalestur sem og langspilstónleika. Þar verður einnig hægt að fá sérfræðileiðsögn um sýninguna Þjóð í mynd og miðaldahluta grunnsýningarinnar, Þjóð verður til.
Fyrir áhugasama er hægt að kynna sér Safnanóttina frekar á heimasíðu Reykjavíkuborgar eða á heimasíðum listasafnanna.