Bóksala Stúdenta ætlar að halda galentine’s-kvöld þann 13. febrúar næstkomandi. Viðburðurinn er hugsaður fyrir alla og er markmið kvöldsins að ná til breiðara hóps fólks. Í boði verða léttar veitingar og einnig verða skemmtileg tilboð í búðinni. Þetta er í fyrsta skipti sem það verður kvöldopnun utan hefðbundins opnunartíma.
„Það eru rosalega margir sem annaðhvort vita ekki af Bóksölu Stúdenta eða halda að Bóksala Stúdenta sé bara fyrir þá sem eru í háskólanum og þora ekki að koma og skoða eða kaupa hjá okkur,“ segir Karolína Monika Figlarska, starfsmaður Bóksölunnar.
Það verður freyðivín í boði, skemmtileg tónlist og fyrstu tíu gestir sem mæta á viðburðinn fá gjafapoka. Ásamt því verður leikur sem heitir „bookish speed-friending“, sem er í líkingu við hraðstefnumót, nema að aðilarnir tengjast í gegnum bækur. Tilgangur þess er að reyna að ná til einstaklinga innan „booktok“-samfélagsins á TikTok, sem er sífellt að stækka á Íslandi. „Við viljum reyna að fá fólk sem er innan booktok til að kynnast betur og skapa meira svona samfélag þar,“ segir Karolína.
Viðburðurinn mun fara fram þann 13. febrúar frá kl. 18 til 20 í Bóksölu Stúdenta og er opinn öllum.