Hönnunarkeppni Háskóla Íslands verður haldin laugardaginn 8. febrúar í Hörpunni. Þessi árlegi viðburður verður í ár haldin í 33.sinn og er hún skipulögð af nemendum í vélar- og iðnaðarverkfræði þar sem þátttakendur hanna tæki til að leysa þrautir á stuttri braut.
Keppnin er opin bæði einstaklingum og liðum, og keppt verður um vegleg verðlaun. Þrjú efstu sætin verða verðlaunuð auk þess sem veitt verður sérstök viðurkenning fyrir áhugaverðustu hönnunina.
Sprengju-Kata, eða Katrin Lilja Sigurðardóttir, vísindakona sem áður var í sprengjugenginu í HÍ og þekkt úr fjölmiðlum, mun kynna keppnina í ár. Onno er helsti styrktaraðili viðburðarins.
Keppnin hefur það markmið að vekja áhuga á hönnun og verkfræði með skemmtilegum og krefjandi verkefnum þar sem hugvit og sköpunarkraftur fá að njóta sín.