Vísindaferðir nemendafélaga við Háskóla Íslands eru komnar á fullt eftir að takmarkanir vegna Covid eru á bak og burt.
Í vísindaferðum sækja nemendur heim fyrirtæki og fá kynningu um starfsemi fyrirtækisins. Eðli fyrirtækjanna fer eftir námsleiðum þeirra nemendafélaga sem um ræðir.
Erfitt fyrir nemendafélögin
Fjóla María Sigurðardóttir er forseti Fjallsins, nemendafélags jarðvísinda-, landfræði- og ferðamálafræðinema við HÍ. Hún segir vísindaferðir mikilvægan þátt í starfi nemendafélaganna.
Eftir að Covid skall á var eðlilega ekki hægt að fara í vísindaferðir. Fjóla segir áhrifin hafa verið mikil.
„Þetta var svolítið erfitt fyrir nemendafélögin að reyna að finna eitthvað annað í staðinn. Það er ekki hægt að hafa viðburð á vegum nemendafélagsins á hverjum föstudegi. Þurfa skipuleggja eitthvað til að gera og eiga pening í veitingar og sal. Það er ekki raunhæft. Það er enginn kosnaður við vísindaferðirnar.“
Gulrót í lok vikunnar
Nemendur sem heyra undir Fjallið fara iðulega í vísindaferðir til ferðaþjónustufyrirtækja.
„Við erum heppin að fara til áhugaverðra fyrirtækja. Það getur verið mjög gaman að kynnast þeirra starfsemi.“
Fjóla segir að það sé frábært að enda skólavikuna á vísindaferð.
„Það er ótrúlega gaman að hafa alltaf eitthvað að hlakka til á föstudegi að geta mætt í vísó, hitta alla. Við erum meðal stórt nemendafélag, þannig það er alltaf frekar góð mæting. Maður kynnist öllum. Þetta er í raun gulrót í lok vikunnar.“
Vísindaferðir fyrri tíma
Elsta dæmið um orðið vísindaferð er, samkvæmt ritmálaskrá Orðabókar Háskólans, frá árinu 1884. Það kemur fyrir í tímaritinu Suðra og er þar lýst ferðum Þorvaldar nokkurs um hálendi Íslands. Á ferðum sínum fræddist hann og skrifaði um náttúrufræðisleg efni og vísindaferðir merkra manna. Þetta kemur fram á Vísindavefnum í grein eftir Jón Gunnar Þorsteinsson.
Jón Gunnar kemur með nútímalegri merkingu orðsins. ´Skipulegar ferðir háskólanema til fyrirtækja og stofnana sem tengjast námi þeirra´. Sem er einmitt fárbær skilgreining á vísindaferðum.