Heim Fréttir Ostur eða áskrift? Skiptar skoðanir á bílastæðum við HÍ

Ostur eða áskrift? Skiptar skoðanir á bílastæðum við HÍ

Parka skilti við Háskóla Íslands
Gjaldtaka á bílastæðum við Háskóla Íslands hófst í byrjun skólaárs.

„1500 krónur hljómar ekki eins og mikið á mánuði fyrir vinnandi fólk í fullu starfi sem setur þessar reglur en fyrir fátæka námsmenn sem þurfa að borga leigu, mat og bílagjöld skiptir hver króna máli. Ostur er farinn að kosta hátt í 1500 krónur úti í búð. Hvort á ég að borga í bílastæði sem ég fæ ekki afnot af eða kaupa mér ost?“ segir Þórný Kristín Laxdal, nemandi á öðru ári í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

Skortur á bílastæðum hefur verið algengt umræðuefni á þessu haustmisseri meðal stúdenta við Háskóla Íslands. Mörg keyra í skólann á hverjum degi og þurfa jafnvel að leggja fyrr af stað í skólann til þess að ná bílastæði, eða leggja langt frá skólanum í gjaldskyld stæði sem falla ekki inn í bílastæðaáskriftina sem þau greiða fyrir.

Áskriftarfjöldi rúmlega tvöfalt meiri en stæðafjöldi

Samkvæmt tölum frá Kristni Jóhannessyni, sviðsstjóra framkvæmda- og tæknimála í Háskóla Íslands, hafa 4200 manns skráð sig í áskrift hjá Parka á þessu misseri. Hann segir að bílastæðin á aðalsvæði skólans séu í kringum 2000.

Kristinn Jóhannesson
Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknimála HÍ. Mynd: Háskóli Íslands

Kristinn segir að bílastæðin séu ekki of fá miðað við fjölda nemenda og starfsfólks. Samkvæmt mælingum sé mesta nýtingin klukkan tíu og fram yfir hádegi og að jafnvel þá sé ekki 100% nýting á stæðunum. „Það eru laus stæði þótt að fólki sýnist allt vera fullt.“ Kristinn bendir einnig á að það séu ekki allir í skólanum á sama tíma: „Sumir mæta bara einu sinni í mánuði.“

Samkvæmt Kristni er gjaldtaka bílastæða við háskólann ekki sett í hagnaðarskyni. Tekjurnar af bílastæðunum fara í að halda þeim gangandi og markmiðið er að reksturinn standi á eigin fótum. „Þar sem bílastæðagjöldum er stillt í hóf á eftir að koma í ljós hver niðurstaðan verður. Tekjur af bílastæðagjöldum berast HÍ sem greiðir fyrir allan rekstur, þar á meðal kostnað við þjónustu Parka lausna ehf,“ svaraði Kristinn þegar blaðamaður spurði hvort einhver hagnaður væri af áskriftinni.

Gestir greiða margfalt meira

Kristinn hefur séð breytingar til hins betra á fjölda bíla í stæðunum við háskólann frá því í fyrra. Hann segir margar ástæður vera fyrir því. Færri utanaðkomandi eru að leggja í stæðin eftir gjaldtökuna, starfsfólk er að fá betri samgöngusamning og strætó hefur aukið tíðni ferða. „Samkvæmt ferðavenjukönnun voru um 60% nemenda að koma einir á bíl í skólann og 55% starfsmanna.“

Nemendur og starfsfólk við HÍ geta keypt sér áskrift á 1500 krónur á mánuði að bílastæðum sem merkt eru H2. Einnig eru skammtímastæði merkt H1 sem falla ekki undir áskriftina og ber þeim sem vilja nota þau að greiða 230 kr/klst. Gestum býðst einnig að nota áskriftarstæðin og greiða þá fyrir þau sama verð og á skammtímastæðunum.

Kort af bílastæðum á aðalsvæði Háskóla Íslands
Kort af bílastæðum á aðalsvæði Háskóla Íslands. Bílastæði merkt H2 (blá á myndinni) eru innifalin í 1500 króna áskriftinni. Mynd: Háskóli Íslands/hi.is

Erfitt að finna stæði við Landspítalann

Álagið á bílastæðum hefur verið töluvert minna núna í sjöttu viku annarinnar á aðalsvæði háskólans, en það fer ekki minnkandi í Eirbergi og Læknagarði, aðsetri hjúkrunar- og læknisfræðinema við Landspítalann Hringbraut. Þórný Kristín Laxdal, nemandi á öðru ári í hjúkrunarfræði, segir að hún hafi þurft að leggja af stað fyrr en hún myndi vilja nánast daglega.

Kort af bílastæðum við Landspítalann Hringbraut
Svona líta bílastæðin út hjá Landspítalanum Hringbraut. Mynd: Landspítali/landspitali.is

Bekkjarfélagar Þórnýjar hafa oft lagt hjá Klambratúni eða N1-höllinni og labbað eða ferðast á hopphjóli þaðan. „Það tekur styttri tíma að labba þessar fimm mínútur en að hringsóla um bílastæðin í von um að finna stæði.“

Þórný Kristín Laxdal í vinnunni
Þórný Kristín Laxdal í vinnunni á Landspítalanum. Aðsend

Henni finnst í góðu lagi að labba smá spöl í skólann á þessum tíma árs, en um leið og það er komið myrkur, hálka eða snjór er það allt annað mál. „Það er ekkert sérstaklega skemmtilegt að mæta seint í tíma í blautum sokkum,“ segir Þórný.

Þórný segir að það mætti halda að ekki sé gert ráð fyrir nemendum í bílastæðunum við Landspítalann og að stæðin séu nú þegar of fá ef miðað er einungis við starfsmannafjöldann. „Ef tíminn þinn byrjar seinna en 8:20 geturðu gleymt því að finna stæði.“ Hún segist oft leggja í íbúagötur í grennd við Landspítalann.

Misjöfn reynsla nemenda

Þórný telur að strætó sé alls ekki betri valkostur en einkabíllinn. Hún nefnir að þótt hún þurfi að leggja 20 mínútum fyrr af stað í skólann til þess að ná stæði sé mun tímafrekara að taka strætó.

„Ég bý í Kópavogi og þyrfti því að taka tvo strætóa með skiptum í Hamraborg sem bætir við aukinni pressu. Við í hjúkrunarfræðinni erum í tímum sem eru með stranga mætingarskyldu. Ef þú ert seinn er þér ekki hleypt inn og ef þú missir af mörgum tímum þarftu að taka fleiri próf og missir jafnvel próftökuréttinn þinn.“

Margrét Anna, nemandi í íslensku. Aðsend

Margrét Anna Friðbjarnardóttir, nemandi á fyrsta ári í íslensku sem býr í Garðabæ, telur strætó ekki áreiðanlegan kost vegna ófyrirsjáanlegra tafa, seinkana og plássleysis. „Það er of mikið stress að treysta á strætó til þess að vera komin á réttum tíma.“ Hún hlakkar til að sjá Borgarlínuna í verki og þætti gott ef HÍ myndi taka þátt í fjármögnun hennar.

Sigvaldi Snær Gunnþórsson málvísindanemi hafði aðra upplifun. Hann sagðist almennt ekki eiga í neinum erfiðleikum með að finna bílastæði. Hann nefnir þó að hann hafi þurft að mæta snemma þegar Októberfest var í gangi og stóra malarstæðið lokað. Einn daginn hafi hann jafnvel keyrt í skólann, ekki fundið neitt stæði og keyrt aftur heim. Þegar á heildina er litið er hann sáttur við stæðamál í skólanum.


Sigvaldi, nemandi í almennum málvísindum. Aðsend

Á meðan Októberfest stóð yfir var malarstæðinu við Háskóla Íslands tímabundið lokað. Frá 29. ágúst–8. september neyddust nemendur því margir til þess að ganga langar leiðir í von um að finna bílastæði einhvers staðar á háskólasvæðinu.

Hvað tekur við?

Mánuður er liðinn af önninni og nemendum sem að mæta í hvern einasta tíma hefur fækkað, eins og gengur og gerist. Lausum stæðum fyrir nemendur virðist því hafa fjölgað, en það má búast við svipuðu ástandi í byrjun næsta skólaárs ef ekkert breytist.

„Við erum rétt að fara af stað og þurfum að sjá hvernig þetta þróast. Það er ekki ástæða til þess að hækka gjaldið ef þetta er í lagi svona,“ segir Kristinn Jóhannesson í viðtali við blaðamann á Stúdentafréttum.

Hann nefnir að samkvæmt þróunaráætlun Háskóla Íslands muni bílastæðum fara fækkandi á næstu árum. Á næsta áratug mun bílastæðum fækka um helming. Kristinn segir það þó ekki vera áhyggjumál, þar sem þetta fer saman við þróun almenningssamgangna á við Borgarlínuna og Strætó.

Kristinn segist sjálfur ekki búa mjög langt frá skólanum. Hann fer sjaldan einn á bíl í háskólann og ferðast stundum á hopphjóli.

Ljóst er að umræðan heldur áfram, hvort sem stúdentar ákveða að fjárfesta í osti eða áskrift, því að þessi mál verða ekki leyst á einum degi. Á meðan þurfa nemendur og starfsfólk að halda áfram að keppast um bílastæði við Háskóla Íslands.