
Seinustu daga hafa nemendur ekki aðeins getað fengið sér að borða á Háskólatorgi, heldur einnig nært sálina. Þar hafa fulltrúar Geðhjálpar og hópur nemenda, sem dreifir orði Guðs, verið á ferð um ganga skólans, en að sögn eins meðlims hópsins voru þau að gefa kaffi og kakó til þess að dreifa ást og kjærleika.
Að sögn Gríms Atlasonar, framkvæmdastjóra Geðhjálpar, voru þau á Háskólatorgi til að fræða um starfsemi samtakanna og mikilvægi geðheilsu á skemmtilegan hátt. Þau kynntu meðal annars „tengslabingó“, sem er hugmynd sem snýst um að efla geðheilsu með jákvæðum samskiptum – til dæmis með því að hrósa öðrum eða eiga góðar samræður.
Samkvæmt starfsmönnum á þjónustuborði Háskólans fengu bæði Geðhjálp og nemendahópurinn sem kynnti kristin gildi leyfi til að vera með kynningar á Háskólatorgi. Engar sérstakar reglur gilda um hvað má kynna innan veggja háskólans, svo lengi sem það er innan marka laga og ekki í andstöðu við stefnu skólans.