Heim Fréttir Óttaðist um líf sitt vegna æstra Star Wars aðdáenda á Stúdentakjallaranum.

Óttaðist um líf sitt vegna æstra Star Wars aðdáenda á Stúdentakjallaranum.

Félagarnir Arnór Steinn Ívarsson og Daníel Freyr Swenson, einnig þekktir sem Pubquiz Plebbarnir, hafa um árabil staðið fyrir stórskemmtilegum pubquiz-kvöldum í Stúdentakjallaranum. Pubquiz-kvöldin þeirra hafa notið mikilla vinsælda meðal nemenda og eru þekkt fyrir fjöruga stemningu, húmor og skapandi spurningar. Umfjöllunarefni spurningakeppnanna hafa verið ansi fjölbreytt, allt frá tröllkallinum Shrek til 2000s nostalgíuþema, og hefur hvert kvöld verið jafn fjölbreytt og þau eru skemmtileg.

Pubquiz Plebbarnir eru virkilega stoltir af því hvernig þeir gera þetta því þeir vilja frekar búa til lifandi sýningu í stað þess að spyrja bara spurninga. Að sögn Arnórs Steins „snýst þetta um að búa til geggjaða stemningu og spyrja spurninga til viðbótar.“. Mikill metnaður fer í hverja einustu sýningu og leggja þeir mikið upp úr því að gera þetta lifandi með PowerPoint-glærum, hljóðbrotum og myndböndum. Þó hafa þeir húmorinn ávallt í framsætinu.

Byrjaði út frá misheppnaðri viðskiptahugmynd

Arnór Steinn og Daníel hafa verið vinir síðan í grunnskóla og voru báðir nemendur við Háskóla Íslands þegar hugmyndin kviknaði. „Ég og Danni vorum alltaf að hugsa um „the next big idea“ eitthvað svona nýsköpunardæmi. Við vorum komnir með hugmynd að appi þannig við fórum jakkafataklæddir í Stúdentakjallarann að hitta forritara. Það varð síðan ekkert úr þessu appi því við komust að því að það væri nú þegar til. En á sama tíma og við höfðum verið á þessum misheppnaða viðskiptafundi var einhver að halda pubquiz.“

„Við tókum ekki eftir pubquizinu því við heyrðum ekki í því. Gæinn sem stjórnaði var með PowerPoint og allan pakkann en okkur fannst vanta slútt. Þetta var alveg skemmtilegt en það var engin stemning. Þannig við ákváðum að ef hann gæti gert þetta, gætum við þetta líka. Þannig við prófuðum bara að senda tölvupóst á Stúdentakjallarann.“

Nafnið kemur út frá því að þeir hafa notað orðið plebbi mikið í gegnum árin. Arnór Steinn segir að þó að orðið sé oftast notað í niðrandi tilgangi vilji þeir líta á sig sem plebba í jákvæðu samhengi, þar sem þeir hafi húmor fyrir sjálfum sér og eigi það til að henda í aulabrandara. Einnig tilheyra þeir samfélagi manna sem hafa áhuga á Rómaveldi, en samkvæmt Arnóri einkennir það plebbastéttina.

Meikuðu það eftir að hafa fyllt Stúdentakjallarann

Pubquiz Plebbanir komu fyrst fram árið 2016 og var fyrsta pubquizið um tölvuleiki. Síðan þá hafa þeir haldið fjölda pubquiza og hafa meira að segja fyllt Stúdentakjallarann nokkrum sinnum. Arnór segir: „Í fyrsta skipti sem við fylltum Stúdentakjallarann þá vorum við með Game of Thrones pubquiz. Ég vil þó ekki segja töluna á fólkinu því ég vil ekki að Stúdentakjallarinn lendi í vandræðum því þetta stóðst ekki alveg brunavarnir. Þetta var alveg brjálað. Við hugsuðum meira segja að við værum búnir að meika það!“

Eitt eftirminnilegasta atvik á löngum ferli pubquiz Plebba var þegar þeir héldu eitt af mörgum Star Wars pubquizum. „Aðdáendur Star Wars eru mjög fróðir í Star-Wars-fræðum og eru virkilega tryggir aðdáendur. Það vildi svo óheppilega til að við gerðum spurningu þar sem svarið var ekki rétt. Þegar við sögðum svarið átti allt um koll að keyra og í svona tvær sekúndur óttaðist ég um líf mitt. Áhorfendur ætluðu hreinlega að hlaupa upp á svið.“

Pubquiz Plebbanir hafa þó ekki einungis skemmt í Stúdentakjallaranum, heldur einnig farið á vinnustaði og haldið pubquiz. Ef fólk vill bóka Pubquiz Plebbana, eða fylgjast með næstu uppákomum, er hægt að finna þá á Instagram @pubquizplebbar eða á heimasíðunni þeirra.

Mynd aðsend