Heim Fréttir Ómálefnalegt hlaðvarp um málefni líðandi stundar

Ómálefnalegt hlaðvarp um málefni líðandi stundar

Kristín Sigrún Áss Sigurðardóttir (t.v.) og Hanna Sigþrúður Birgisdóttir (t.h.), stjórnendur hlaðvarpsins „Lof mér að tala“. Aðsend.

Þegar 10. bekkingar á göngum Hagaskóla kasta á milli sín hugmyndum um að stofna hlaðvarp er ekki víst að það verði að neinu og flestir gleyma draumnum. En hjá Kristínu Sigrúnu Áss Sigurðardóttur stjórnmálafræðinema og Hönnu Sigþrúði Birgisdóttur íslenskunema átti þessi hugmynd eftir að gerjast í sex ár. Í dag eru þær orðnar þekktar meðal háskólanema og jafnvel ókunnugra starfsmanna sendiráða, og hlaðvarpið þeirra, Lof mér að tala, nýtur sívaxandi vinsælda.

Kristín og Hanna töluðu oft um að byrja saman með hlaðvarp en létu aldrei til skarar skríða. Það breyttist á einni djammnótt í miðbænum í maí síðastliðnum þegar Hinrik Hrafn Bergsson íslenskunemi, sem nú er hljóðmaður hlaðvarpsins og „óformlegur umboðsmaður“, hvatti þær til þess að byrja. Hann bókaði upptökutíma fyrir þær í Kompunni, hlaðvarpsstúdíói Borgarbókasafnsins, og eftir það var ekki aftur snúið.

Nafnið sem varð til í göngutúr

Nafn hlaðvarpsins varð til í göngutúr sem Kristín fór í stuttu eftir að Hinrik bókaði tímann í stúdíóinu. Hún skrifaði nokkur nöfn á lista og bar listann undir Hönnu. Þar fannst þeim „Lof mér að tala“ skara fram úr. „Hlussur með fóninn“ féll til dæmis ekki í kramið og þær voru ekki vissar um að það myndi höfða til margra. „Lof mér að tala“ fannst þeim hljóma vel, passa við efnið og bjóða upp á orðaleiki sem fólk gæti tekið upp, sem það hefur einmitt gert, að sögn Hönnu. Þar hefur „lof mér að þegja“ verið í miklu uppáhaldi.

Forsíðumynd Lof mér að tala. Mynd: Spotify.

Að viku liðinni voru þær komnar með nafn, upphafsstef og allt annað sem þarf fyrir stofnun á hlaðvarpi og mættu upp í stúdíó til að taka upp fyrsta þáttinn sinn. Þar kynntu þær sig sem „vinkonur sem tala óeðlilega mikið“ og vildu bjóða þjóðinni að njóta með. Í hlaðvarpinu ræða Hanna og Kristín fréttir vikunnar, dægurmenningu og það sem helst er að frétta í lífi þeirra.

Fastir liðir í sífelldri þróun

Þættirnir hafa tekið miklum breytingum frá fyrstu upptökum og vinkonurnar hafa prófað ýmsa liði, allt frá „lagi vikunnar“ og „ljóði vikunnar“ til „it girl vikunnar“ og „fréttar vikunnar“.

Hanna og Kristín hafa safnað saman öllum lögum vikunnar í einn lagalista á Spotify. Skjáskot.

Kristín segir að eini liðurinn sem hafi haldist stöðugur sé „frétt vikunnar“ og Hanna bætir við að „lag vikunnar“ hafi líka reynst ómissandi. Hápunktur og lágpunktur vikunnar hafa líka oft verið teknir fyrir í þáttum vinkvennanna, þó stundum óbeint.

Þær viðurkenna að þær hafi stundum reynt að leita logandi ljósi að lágpunkti vikunnar, eitthvað eins og að „labb í skólann“ væri lágpunktur, sem að þeirra mati væri einfaldlega lélegt efni. Í seinni tíð fjalli þær frekar um vikuna sína almennt, nema þegar eitthvað sérstaklega slæmt gerist, þá sé það náttúrulega „algjör lágpunktur“.

„Fan vikunnar“ hefur hins vegar reynst vera vinsæll liður, ekki síst eftir að þær byrjuðu í skólanum og fóru oftar á djammið. Þar hafa þær margoft hitt hlustendur sem koma upp að þeim með hrós á við „OMG love the pod,“ og er viðkomandi oft jafnharðan krýndur aðdáandi vikunnar. Þær segja þetta til gamans gert en liðurinn virðist hafa fest sig í sessi.

Ekki í boði að hætta

Þær eru báðar sammála um að eftir að fyrsti þátturinn kom út hafi ekki verið hægt að hætta. Hanna segist ekki hafa getað auglýst út um allt að hún væri með hlaðvarp og svo hætt með það stuttu síðar. „Það er geðveikt vandræðalegt. Við gátum ekki gefið út þrjá þætti og svo bara hætt!“

Hanna, Kristín og Hinrik í góðum gír að taka upp fimmta þátt af Lof mér að tala. Mynd: Instagram/@lofmeradtala

Kristín tekur undir orð Hönnu og segir að þær hafi ekki viljað „aumingjast“. Þær settu þó ákveðin mörk; ef enginn myndi hlusta, þá myndu þær hætta. En hlustendur komu strax og því héldu þær áfram.

Skólinn hefur þó sett pressu á þær, sérstaklega nú þegar prófatíð nálgast. Samt ætla þær sér að halda upptökum áfram og vonast til þess að einhver hlusti á þær í pásum frá prófalestri.

Hittu „fans“ á djamminu

Viðtökurnar hafa komið þeim verulega á óvart og fólk fór að þekkja þær úti í bæ. „Seinustu fjögur skipti sem við höfum farið á djammið hafa einhverjir komið upp að okkur og sagt að þeir séu hlustendur,“ segir Kristín. Það á þó ekki aðeins við um háskólanema, sem mætti segja að væri aðalmarkhópur hlaðvarpsins. Þær nefna vinahópa í Menntaskólanum við Hamrahlíð, ókunnar samstarfskonur móður Kristínar og jafnvel konu sem vinnur í sendiráði.

TikTok hefur líka reynst áhrifaríkt. Kristín sér um að velja hljóðbúta úr þáttunum til birtingar á TikTok, og vinsælasta myndband þeirra hefur fengið yfir 40 þúsund áhorf.

„Hate comments“ og húmor

Vinsældum á netinu fylgja þó ekki alltaf hlý orð. Þær hafa fengið bæði saklaust grín og dónalegar athugasemdir á TikTok. En í stað þess að láta neikvæð viðbrögð draga sig niður finnst þeim það bara fyndið.

Skjáskot af athugasemd á TikTok síðunni @lofmeradtala

„Uppáhalds athugasemdin mín á TikTok er: ‘Það þarf að hækka tolla á hljóðnema,’“ segir Kristín og hlær. Hanna nefnir að þær hafi líka nýlega fengið athugasemd í kjölfar myndbands um matarvenjur íslenskra stráka sem stunda líkamsrækt. Einhver sagði að þær ættu að „taka þetta til sín“ þar sem þær væru „of stórar á tvítugsaldri“ og myndu „blása upp á næstu árum.“ Þær hlæja að þessu og taka þessum nafnlausu athugasemdum því hvorki nærri sér né alvarlega.

Skjáskot af athugasemd á TikTok síðunni @lofmeradtala

Uppáhaldsþættir og erfiðar upptökur

Hanna segir að fyrsti uppáhaldsþátturinn sinn hafi verið þáttur tvö, „Málefnalegar gellur með bílpróf,“ sem fjallaði meðal annars um FM95Blö tónleikana og að Kristín væri nýlega komin með bílpróf. Kristínu þykir vænt um þriðja þáttinn, „Barcelona debrief (feat. Una Ragnars)“ þar sem þær fóru yfir útlandaferð sína saman með vinkonu sinni.

Aðsend.

Ekki eru þó allar upptökur jafn skemmtilegar. Þær nefna sérstaklega þátt tíu, „Ástandið,“ sem var nálægt því að rata í ruslið eftir stórt rifrildi, meðal annars um Ice Guys. „Við vorum bara að rífast!“ segir Kristín. Þar kom Hinrik sterkur inn, sem þær fullyrða að bjargi þeim reglulega með því að stoppa rifrildi áður en þau fara úr böndunum.

Hinrik hljóðmaður og bjargvættur

Hanna, Hinrik og Kristín eldhress á instagram. Mynd: Instagram/@lofmeradtala.

Ef Hanna og Kristín eru hjartað í hlaðvarpinu er Hinrik sennilega heilinn. Hann sér um upptökur, hljóðvinnslu, græjur og birtingu á Spotify og Apple Podcasts. Hann hefur komið í veg fyrir ótal minni háttar krísur meðal vinkvennanna.

Kristín segir að það hafi verið hræðilegt þegar hann var í burtu í tvær vikur og þær þurftu að sjá um tæknina sjálfar. „Við vorum næstum hættar að vera vinkonur.“ Hanna tekur undir: „Við getum ekki hugsað nógu vel þegar við erum líka að pæla í tækninni.“

Halda áfram á meðan þetta er skemmtilegt

Kristín og Hanna hafa skýr markmið fyrir framtíð „Lof mér að tala“: Að þetta sé gaman. „Ég ætla bara að hætta þessu þegar þetta verður leiðinlegt,“ segir Hanna. Draumurinn væri að halda live show, „þó að bara þrjátíu manns mæti,“ segir Hanna. Kristín svarar að hún vilji nú frekar stefna á 150 og hlær, en þær viðurkenna að aðalmálið sé að salurinn fyllist ekki eingöngu af vinkonum þeirra.

Þangað til halda þær áfram að skemmta lýðnum og lofa sér að tala.

Hægt er að hlusta á „Lof mér að tala“ á Spotify og Apple Podcasts. Þær halda einnig utan um Instagram og TikTok reikninga undir nafninu @lofmeradtala.