Ljúfir raftónar sveimuðu um Háskólatorgið þann 12. október síðastliðinn þegar tónlistarkonan KUSK steig á svið við góðar undirtektir. Tónleikarnir voru fyrstu Háskólatónleikarnir á þessu skólaári. KUSK, sem réttu nafni heitir Kolbrún Óskarsdóttir, sigraði keppnina Músíktilraunir fyrr á þessu ári en hlaut hún einnig verðlaunin rafheili Músíktilrauna, sem og viðurkenningu fyrir íslenska textagerð. Vel var mætt á Háskólatónleikana þar sem nemendur, sem og aðrir dreifðust víðsvegar um torgið og lögðu við hlustir.
Arnar Eggert Thoroddsen, doktor í tónlistarfræðum og aðjúnkt á Félagsvísindasviði, er umsjónarmaður og listrænn stjórnandi Háskólatónleikana. Var Arnar beðinn um að taka við þeim taumum fyrir rúmlega tveimur árum síðan: „Ég var semsagt beðinn um, eða séð hvort ég hefði áhuga á að taka þetta að mér og sjá um þetta og svona breyta aðeins áherslum. Þetta hafði legið mjög mikið bara í klassískri músík..og bara poppa þetta aðeins upp, koma með áherslubreytingar. Hér áður fyrr hafði fólk getað sótt um að fá að spila, svona umsóknarferli og nefndir og eitthvað svona, en ég semsagt bara ræð þessu öllu sjálfur og ég bara vel inn listamenn og er að reyna að búa til svona mynd af samfélaginu. Fá ungar þungarokkshljómsveitir, djassara, klassík, hip-hop, country og whatever sko til að endurspegla í rauninni íslenskt tónlistarlíf. Og bara þetta hlutverk Háskóla í víðum skilningi að styðja við og sinna menningarstarfsemi, þetta er svo samtengt“.
Kórónufaraldurinn setti þó strik í reikningin til að byrja með eftir að Arnar hafði tekið við sem umsjónarmaður en kallaði það þó fram breytingar sem spila í dag stóran þátt þegar kemur að Háskólatónleikunum.
„Þegar ég auðvitað tek við þessu þá brestur á og allt farið af stað í Covid. Við ætluðum að keyra þetta af stað um haustið 2020. Við ákváðum bara, ég og Magnús Diðrik, skrifstofustjóri Rektorsskrifstofu að fara bara af stað full force með þetta í streymi“ segir Arnar og bætir við „Allan fyrsta veturinn er þetta eingöngu streymt. Þannig við vorum kannski að taka þetta inni í kapellunni eða inni í Hátíðarsal og eina fólkið sem var kannski í salnum voru tæknimenn, hljómsveit og ég“. Segir Arnar og bendir á að öllum Háskólatónleikum sé í dag ennþá streymt ásamt því að vera spilaðir fyrir framan áhorfendur, en einnig eru þeir vistaðir á sérstakri youtube-rás þar sem hægt er að horfa á þá aftur.
Tónleikar KUSK voru þeir fyrstu á Háskólaárinu en svo sannarlega ekki þeir síðustu en Arnar segir að nóg sé á teikniborðinu fyrir það sem koma skal: „Næst verðum við með Jólatónleika en ég á eftir að hugsa hverja við fáum. Síðan verðum við með þrenna tónleika í vor og það er bara allskonar“ og bætir við „við reynum að hafa þetta fjölbreytt“.
Youtube-rás Háskólatónleikana má svo sjá hér