Stefan Sand Groves hefur þetta haustið tekið tímabundið við sem kórstjóri háskólakórsins.
Háskólakórinn er sameiginlegur kór allra háskóla höfuðborgarsvæðisins sem býður upp á fjölbreytta dagskrá. Stefan hefur starfað sem aðstoðar kórstjóri Gunnsteins Ólafssonar í tvö ár. Nú er Gunnsteinn í tímabundnu leyfi frá kórnum en hann er staddur erlendis að semja tónlist.
Dagskráin og áherslurnar munu þó haldast í svipuðum stíl. „Í hver skipti sem er nýr kórstjóri breytast áherslurnar smávegis. Aðallega vegna þess að hver og einn hefur sín eigin áhugasvið innan tónlistar og út af mismunandi persónuleika hvers og eins. Kannski heyrir hann eitthvað sem ég heyri ekki og öfugt En í grófum dráttum vinnum við mikið með sama efnið,“ segir Stefan.
Næstu tónleikar kórsins verða í Langholtskirkju 20. og 21. Nóvember en þeir eru haldnir í tilefni 50 ára afmæli kórsins. Einnig verða haldnir árlegir jólatónleikar kórsins en þeir verða auglýstir síðar.
Spennandi tækifæri
Stefan segist vera spenntur fyrir tækifærinu og dagskrá haustsins, enda sé þetta fyrsta skipti sem hann ber ábyrgð á kór í heila önn. „Þetta er mjög spennandi fyrir mig vegna þess að ég er enn þá ungur. Það verður áhugavert og lærdómsríkt að fá viðbrögð frá kórnum. Auðvitað er reynslan mikilvægur hluti tónlistarstjórnunar almennt.“ Nú stundar Stefan nám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands en er með MA gráðu í píanókennslu frá konunglega danska tónlistarháskólanum.