„Barnslausar konur voru síður líklegar til þess að eignast barn í Covid heldur en fyrir Covid. Frjósemin hjá þeim hópi lækkaði. Að sama skapi jókst frjósemin hjá mæðrum. Þá varð óvissan sem fylgdi faraldrinum kannski til þess að barnslaus pör ákváðu að bíða með að eignast sitt fyrsta barn. Fyrsta barn er oft stærri ákvörðun en að eignast annað barn,“ segir lýðfræðingurinn, Ari Klængur Jónsson sem er hluti af rannsóknarteymi hjá Félagsvísindasviði Háskóla Íslands.
Í upphafi árs hlutu þau Öndvegisstyrk til að rannsaka barneignir í víðu samhengi. Hluti af rannsókninni er að skoða lækkandi fæðingartíðni síðastliðin áratug. Ari sá áhugaverða þróun tengda Covid og fæðingartíðni.
„Síðustu ár hafa verið mjög áhugaverð því fæðingartíðni hefur lækkað og hefur verið í sögulegu lágmarki á Íslandi undanfarin 5-7 ár. Það kom smá kippur í fyrra á Covid tímabilinu. Það er mjög áhugavert afhverju barneignum fjölgaði í miðjum heimsfaraldri. Þetta gerðist víðar. Svo núna fyrstu 9 mánuði þessa árs hefur aftur dregið mjög mikið úr barneignum,“ segir Ari og er spenntur fyrir að skoða hvers vegna fæðingartíðni hækkaði í Covid.
Ari segir hægara samfélag í Covid mögulega ástæðu fyrir því að pör sem áttu barn fyrir ákváðu að nýta sér Covid tímann. Þetta voru börn sem pörin hefðu mögulega átt í ár eða á næstu árum. Þau ákvaðu hinvegar að flýta þeim og nota tímann í Covid. Þetta eru þær tilgátur sem Ari er að vinna með.
Upphaflega var markmið rannsóknarinnar ekki endilega að skoða fæðingartíðni í sambandi við Covid. En vegna þess hve áhugaverð þróunin var ákvað Ari að skoða það betur.