Heim Fréttir Frá Haifa til Akraness – fjórar kynslóðir á flótta

Frá Haifa til Akraness – fjórar kynslóðir á flótta

Mynd af Mariyam Anwar Nassar
Mariyam Anwar Nassar stendur við teikningu af palestínska fánanum/Mynd aðsend

Frá Palestínu árið 1948 til Íslands í dag – Mariyam Anwar Nassar, hagfræðinemi við Háskóla Íslands, ber með sér sögu fjögurra kynslóða á flótta, mótaða af missi og von um að sjá landið sitt frjálst á ný. 

Haifa, Palestína

Árið er 1948, ríkið Ísrael er nýlega stofnað eftir að svokölluð skiptingaráætlun fyrir Palestínu var samþykkt af Sameinuðu þjóðunum. Palestína, sem þá var undir breskri stjórn, átti að skiptast í tvo hluta – gyðingaríki og arabískt ríki. Við þessa skiptingu brutust út hörð átök sem leiddu til þess að hundruð þúsunda Palestínumanna voru hrakin frá heimilum sínum og flúðu til nærliggjandi ríkja. Þessi atburður heitir Nakba, sem merkir „hörmungin“ á arabísku. 

Á meðal þeirra sem neyddust til að flýja voru langafi og langamma Mariyam. Þau bæði ólust upp í hafnarborginni Haifa sem nú tilheyrir Ísrael. Haifa var með fyrstu borgunum sem Palestínumenn urðu að yfirgefa og þá flúðu forfeður Mariyam til Íraks og settust að í höfuðborginni Bagdad eftir að hafa misst bæði heimili sitt og land. 

Bagdad, Írak

Foreldrar Mariyam fæddust og ólust bæði upp í Bagdad en sáu sig allt sitt líf sem palestínsk þar sem bæði tvö eiga sögu sína að rekja til Haifa.

Mariyam fæddist árið 2003 í Bagdad, yngst þriggja systkina. Sama ár réðst Bandaríkjaher inn í Írak sem leiddi til mikilla átaka á milli mismunandi hópa innan landsins. Átökin stigmögnuðust á árunum 2006 til 2007, lífið í Bagdad var orðið stórhættulegt. 

Árið 2006 lést faðir Mariyam á leið til vinnu – hún hefur engar minningar um hann. Stuttu síðar ákvað móðir hennar að flýja átökin og hættuna í Írak, með börnin sín þrjú í för. 

Akranes, Ísland

Árið 2008 komu Mariyam, bræður hennar og móðir þeirra til Íslands sem kvótaflóttamenn. Þetta voru alls átta konur frá Írak sem komu það ár til landsins. Allar höfðu þær misst eiginmenn sína og voru með börn undir lögaldri. Fjölskyldurnar fengu ný heimili á Akranesi, þar sem Mariyam og fjölskylda hennar náðu fljótt fótfestu og byggðu nýtt líf. 

Mariyam og fjölskylda á Keflavíkurflugvelli
Mariyam og fjölskylda hennar á Keflavíkurflugvelli árið 2008. Frá hægri: Bakir Anwar Nassar, Mariyam, móðir þeirra og Ómar Anwar Nassar/Mynd aðsend

„Ísland tók okkur að sér og hálfgert ættleiddi okkur,“ segir Mariyam.

Vill kynnast rótum sínum

Mariyam sér sig sjálfa sem íslenska og palestínska, með írakska menningu í blóðinu. Hún hefur sjálf aldrei komið til Palestínu né til Íraks eftir að hún flúði. Stór draumur hennar er að fá að heimsækja heimaslóðir forfeðranna í Palestínu og hitta afa sinn í Bagdad, sem er eini lifandi ættingi hennar fyrir utan móður og bræður á Íslandi.

„Mig langar að kynnast og fá að sjá landið mitt, Palestínu. En á sama tíma er ég líka hrædd þar sem ég þyrfti að lenda í Ísrael og þar er ekki tekið vel við manni ef maður er af arabískum ættum.“

Mynd af Mariyam sem krakki með hesti
Mariyam í fimmta bekk að heimsækja hesta/Mynd aðsend
„Ég vildi að ég ætti enn ættingja í Palestínu, en allir voru reknir burt 1948,“ segir Mariyam

Henni finnst erfitt að sjá fyrir sér að átökin í Palestínu ljúki brátt. „Ég held ekki að þau geti lifað saman, það eru örugglega einhverjir sem geta séð fyrir sér einhvers konar frið en það mun alltaf vera hatur á milli þeirra, en hatur er engin lausn,“ segir hún.