Heim Fréttir Út í heim með Háskóla Íslands

Út í heim með Háskóla Íslands

Alþjóðadagur HÍ 2025, háskólatorg
Fjör og líf var á Alþjóðadögum HÍ sem haldnir voru 5.-7. nóvember

Nemendur við Háskóla Íslands hafa fjölmörg tækifæri til að stunda nám víðs vegar um heiminn. Alþjóðadögum HÍ lauk fyrir helgi, en þar voru kynnt fjölbreytt tækifæri til skiptináms í bæði grunn- og framhaldsnámi.

HÍ er í samstarfi við 400 háskóla um allan heim sem bjóða upp á skiptinám bæði í grunn- og framhaldsnámi. Um 200 nemendur Háskóla Íslands fara í skiptinám ár hvert. Í boði eru háskólar á Norðurlöndunum, Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, mið- og suður-Ameríku, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Asíu. Á vefsíðu alþjóðasviðs er hægt að leita nánar að háskólunum sem eru í samstarfi við HÍ.

Hægt er að fara í lengri og styttri skiptinámsdvöl. Lengri dvölin er eitt eða tvö misseri. Styttri dvölin er allt frá fimm, upp í þrjátíu daga. Hámarkstími skiptinámsdvalar fyrir hvern nemenda er eitt skólaár á hverju námsstigi. Námið erlendis verður metið til eininga í HÍ og þar með ætti það ekki að lengja námstímann.

Mynd af skiptinemunum Moses og Izzah
Moses og Izzah eru ánægð með námið í HÍ.

Alþjóðaskiptinemarnir Moses Jason Osabutey, frá Ghana og nemi í tölvunarfræði, og Izzaf Ramzan, frá Pakistan og nemi í félagsfræði, mæla eindregið með því að nýta sér tækifærið til að kanna heiminn. Bæði tvö eru mjög ánægð með að hafa fengið möguleikann á að koma til Íslands og stunda nám við HÍ. Það eina sem dregur dvöl þeirra niður hér á Íslandi að sögn Moses er veðrið, „veðrið er ömurlegt, en annars er frábært að vera hér“.

Skiptinám er fyrir alla

Flestir nemendur HÍ geta nýtt sér tækifærin til skiptináms, en nemendur þurfa að standast nokkrar kröfur. Þar á meðal þurfa allir nemendur í grunnámi að hafa lokið 60 ECTS (eitt skólaár). Framhaldsnemar sem hafa ekki verið í samfelldu námi þurfa að klára 30 ECTS, áður en förinni er heitið út. Einnig þarf meðaleinkunn nemenda að vera sex eða hærri til að uppfylla skilyrði og aðeins er hægt að fara í skiptinám í aðalgrein, en ekki í aukagrein. Sumar deildir innan HÍ hafa þó sér skilyrði sem þarf að skoða áður en sótt er um.

Ef nemendur hyggjast fara í skiptinám er umsóknarferillinn nokkuð einfaldur. Byrjað er á því að sækja um í gegnum HÍ-vefinn. Starfsmenn alþjóðasviðsins fara yfir umsóknina, það gæti tekið allt að sex til átta vikur. Ef allt stemmir verður hún samþykkt og þá þarf að sækja um beint hjá gestaskólunum. Frestur til að sækja um skiptinám er til og með fyrsta febrúar ár hvert, en þá er hægt að sækja um fyrir næstkomandi skólaár. Á haustin er boðið upp á viðbótarumsóknarfrest fyrir komandi vormisseri, þetta árið var það tíundi september.

Styrkir og kostnaður

Mynd af Tianlian og Xia
Tianlian Liao og Xia Wangs frá Northern Lights Confucius Institute-verkefninu sem er á milli HÍ og Ningbo-háskólans í Kína

Það getur verið kostnaðarsamt að fara út í nám, þegar flugið, maturinn og gistingin er reiknuð saman getur upphæðin verið ansi há. Skiptinemar frá Háskóla Íslands eiga þó kost á fjölmörgum styrkjum. Ef farið er í nám innan Evrópu eiga nemendur kost á ferða- og dvalarstyrk í gegnum Nordplus og Erasmus+. Þegar sótt er um skiptinám á vegum Nordplus og Erasmus+ er sjálfkrafa einnig sótt um ferða- og dvalarstyrkinn. Erfiðara er að finna styrki til náms utan Evrópu en þó er hægt að nálgast þá í sumum tilfellum. Upplýsingar um þá styrki veita starfsmenn alþjóðasviðs.

Þeir sem hyggjast stunda nám við háskóla í Bandaríkjunum eða Bretlandi, til dæmis, geta glaðst yfir því að skólagjöld við gestaháskólann falla niður þegar farið er í skiptinám. Þar sem skólagjöld erlendis geta numið nokkrum milljónum króna er þetta mikilvægur kostur. Nemendur greiða einungis skrásetningargjald Háskóla Íslands, sem er 75.000 krónur.

Ef nemendur eru í vafa eða með spurningar er best að heyra beint í tengiliði alþjóðamála í hverri deild fyrir sig, eða beint við starfsmenn alþjóðasviðsins.

„Alltaf velkomið að hafa samband við okkur. Markmiðið er að gera sem flestum kleift að nýta sér þessi frábæru tækifæri,“ segir Ingibjörg H. Steingrímsdóttir verkefnisstjóri alþjóðasviðs.