Nemendur komu saman í Eiríksbúð síðastliðinn þriðjudag til þess að elda mat úr hráefni sem átti að henda. Viðburðurinn var hluti af Grænum dögum sem Gaia, nemendafélag meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði, skipulagði. Dóra Svavarsdóttir, matreiðslumeistari Slow Food, leiðbeindi hópnum við eldamennskuna og í lok kvöldsins var komið vandað hlaðborð. Að máltíð lokinni fengu nemendur að taka afgangshráefnin með sér heim. Meðal þess sem var í boði að taka með sér var 5 kg frosinn kalkúnn, grænmeti og krydd.