„Það hafa verið gerðar kannanir og Landsnet gerði könnun fyrir ekki svo löngu síðan sem að sýnir að tæp 60% fólks á aldrinum 16-25 ára er bara með verulega áhyggjur af loftslagsmálum” sagði Arnhildur Hálfdánardóttir, dagskrárgerðarkona á RÚV, á hádegisfundi Loftslagsleiðtogans og Stofnunnar Sæmundar Fróða um sjálfbæra þróun þann 25. janúar síðastliðinn. Málefni fundarins var loftslagskvíði og flutti Arnhildur þar með erindi ásamt Sverri Norland rithöfundi ásamt því að taka þátt í pallborðsumræðum.
Félagsleg einangrun áhætta
Áhugaverðar umræður lituðu andrúmsloftið þegar spurningar úr sal fóru að berast og var meðal annars rætt hvort ekki væri kominn tími á alvöru byltingu í þágu loftslagsmála og þó þátttakendur í pallborðsumræðum væru sammála mátti einnig heyra rök fyrir hvers vegna það gæti verið erfiðara en margir kunna að halda. Sagði Arnhildur til að mynda:
„Ég hef pælt í því, af hverju það er… eins og unglingar, sem að leiða þetta. Þau eru í raun ekki í vinnu þar sem það myndi gjörsamlega eyðileggja þau ef þau myndu hlekkja sig við bensínstöðvar. Þetta eru líka félagslegir hagsmunir því eins og staðan er í dag þá er samfélagið á ákveðinni leið, rangri leið því miður, en ef þú ætlar að fara eitthvað upp á móti því þá geturðu einangrast félagslega. Þannig eins og fólk með börn, fjölskyldu og heimili, hverjir eru hagsmunir þínir? Eru þeir að tilheyra félagslega og eiga í þig og á, og þá sérstaklega ef að ástandið í heiminum fer að verða verra… eru hagsmunirnir þá að fylgja hjörðinni. Já ég held það”
Og tók Sverrir undir:
„Þegar ég var í krísunni minni þá var hluti af því að fá mér vinnu hjá loftslagsfyrirtæki sem starfar hér og bara fínt og gott fólk sem vinnur þar. En það var bara að sitja við tölvu allan daginn og safna gögnum. Mæta í vinnuna á réttum og á bíl. Það voru allir á bíl. Og það var raunverulega enginn að pæla í þessu. Það var bara verið að græða peninga og safna gögnum… en þetta er leið innan kapítalismans til þess að vera í vinnu og geta borgað af húsnæðisláninu sínu og bjargað heiminum en þú ert engu að bjarga.”
„Þá er þetta bara heimurinn okkar“
Þegar rætt var hvort umræður og hreyfingar í þágu loftslagsins væru í áhættu á að fara einhverntíman í gegnum kulnun eða renna út í sandinn að sökum þess hve langan tíma baráttan myndi taka bætti Sverrir við:
„Ég held að eftir því sem að heimsmyndin breytist meira þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af hvort við nennum að spá í þetta eða ekki. Ég held að það verði bara óhjákvæmilegt. Þetta verður örugglega meira og meira innbyggt í það sem við gerum. Eins og hérna í dag, við sitjum hérna í lúxus og við getum farið út í búðir og keypt það sem okkur sýnist og við erum öll klædd í flott föt og höfum það mjög gott… en um leið og við finnum meira og meira fyrir afleiðingum að allt í einu getum við ekki keypt eitthvað, hvort sem það er út af stríði eða straumi flóttafólks þá er þetta ekki spurning hvort við höldum einbeitingu, þá er þetta bara heimurinn okkar.”
Ekki var þó einungis að finna þungar setningar í málstofunni en háskólaneminn og loftslagsleiðtoginn Úlfur Atli Stefaníuson benti á að bjartsýni væri lykilatriði þegar kæmi að loftslagskvíða og að finna má jákvæðni í umræðunni um loftslagsmál:
„Án þess að vera að gera lítið úr loftslagskrísunni þá eru alveg jákvæðir hlutir að gerast, þó það er kannski ekki að gerast nógu hratt. Það er svo hættulegt ef maður missir vonina því við stöndum okkur yfirleitt betur í verkefnum ef við erum bjartsýn.”
Eins og fyrr hefur komið fram fluttu Sverrir og Arnhildur einnig erindi á fundinum. Sverrir, sem nýverið gaf út bók sína Stríð og kliður, ræddi um hvernig bókin hafi orðið til útfrá sínum eigin loftslagskvíða og hefur Arnhildur m.a. séð um hlaðvörpin Loftslagsdæmið og Loftslagsþerapían og því þaulvön loftslagsumræðum. Í pallborðsumræðum tóku svo einnig þátt Katrín Sverrisdóttir, sálfræðingur og fyrrnefndur loftslagsleiðtogi Úlfur Atli en Loftslagsleiðtoginn er hreyfiafl sem hefur það að markmiði að fræða og valdefla einstaklinga í tenglsum við umhverfis- og loftslagsmál.