Heim Fréttir 70% stúdenta finna sig knúin til að vinna með námi

70% stúdenta finna sig knúin til að vinna með námi

Katrín Björk Kristjánsdóttir stóð að framkvæmd könnunarinnar

Stúdentar þurfa að vinna með námi til að ná endum saman, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Stúdentaráðs um fjárhagsstöðu stúdenta, hvort sem þau taka námslán eða ekki, en 70% stúdenta vinna með námi. Bein framfærsla er algengasta ástæða þess að stúdentar finna sig knúin til þess að vinna með skóla, þ.e. fæðiskostnaður, húsnæðiskostnaður, samgöngukostnaður, bækur og annar kostnaður vegna skóla. Algengast er að stúdentar sem vinna samhliða námi vinni hlutastarf en 15% svarenda vinna meira en 75% vinnu með námi. Rúmlega helmingur þeirra stúdenta sem taka námslán sögðust myndu hætta að vinna með námi ef námslánin dygðu fyrir grunnframfærslu

Samsvörun við niðurstöður kannana Eurostudent

„Könnunin um fjárhagsstöðu stúdenta rímar við niðurstöður Eurostudent en þar kemur m.a. fram að 72% allra vinnandi stúdenta á Íslandi telja að án launaðs starfs hefðu þeir ekki efni á að stunda nám sitt. Auk þessa eru fjárhagslegir erfiðleikar stúdenta mjög miklir en 31% stúdenta á Íslandi meta fjárhagslega erfiðleika sína alvarlega eða mjög alvarlega. Það er áhyggjuefni og ljóst er að það þarf að búa betur fjárhagslega um stúdenta á Íslandi á meðan námi stendur. Aðgerðir sem styðja við stöðu námsfólks er fjárfesting í framtíðinni,“ segir Katrín Björk Kristjánsdóttir, en hún stóð að framkvæmd könnunarinnar ásamt Maríu Sól Antonsdóttur.

Fjórðungur stúdenta framfleytir sér eingöngu með námslánum

Eingöngu rétt rúmlega fjórðungur þeirra stúdenta sem taka námslán framfleyta sér eingöngu á lánum, en einungis 9.5% svarenda voru mjög sammála eða sammála fullyrðingunni ,,Námslánin duga til að ég geti framfleytt mér.“ Aftur á móti voru tæplega 85% svarenda ósammála eða mjög ósammála fullyrðingunni.