Hefur þú einhvern tímann upplifað að bókstafir hafi ákveðna liti, eða brögð? Það fyrirbæri kallast samskynjun (e. synesthesia). Hrafnhildur Ólafsdóttir og Hulda Björk Gunnarsdóttir, nemendur við Sálfræðideild HÍ, vinna nú að BS-rannsókn sem fjallar um fyrirbærið. Um 1-2% fólks upplifir einhvers konar samskynjanir. Það er þegar skynfæri vekja upp viðbrögð í öðrum, til dæmis sjá liti þegar lesnir eru bókstafir, tengja snertingu við hljóð eða upplifa lykt með ákveðnum orðum.
Verkefnið er hluti af stærri alþjóðlegri rannsókn sem leidd er af dr. Nicholas Root við Amsterdam-háskóla, í samstarfi við dr. Heiðu Maríu Sigurðardóttur við HÍ, dr. Árna Gunnar Ásgeirsson við HA og dr. Ingu Maríu Ólafsdóttur við HR. Rannsóknin er hluti af víðtækri könnun til að skoða samskynjun á heimsvísu.
,,Við viljum skilja samskynjun betur“
Rannsóknin er grunnrannsókn á fyrirbærinu, en niðurstöðurnar geta gefið vísbendingar um hvernig skynjanir og hugrænir ferlar virka almennt. Dr. Heiða María Sigurðardóttir, leiðbeinandi Hrafnhildar og Huldu, er taugavísindamaður og leggur áherslu á að rannsókn sem þessi gæti veitt innsýn í víðari þætti hugrænnar starfsemi.
,,Það er mjög áhugavert hvað þetta snertir á öðrum sviðum, ekki bara skynjun heldur einnig á þáttum eins og minni,“ segir Hrafnhildur. ,,Það er oft talað um að það séu tengsl milli samskynjunar og skapandi hugsunar, að fólk með samskynjun sé listrænna og hafi öðruvísi nálgun á skynjun og hugsun. Þetta er mjög stór partur af því hvernig sumt fólk skynjar heiminn- og þetta fólk myndi ekki vilja vera án þessara eiginleika.“

Samskynjun í mismunandi menningarheimum
Rannsóknir benda til þess að tungumál og umhverfisþættir eins og t.d. stafrófspúsl og seglar, geti mögulega mótað hvernig rittákna-lita samskynjun birtist hjá einstaklingum.
,,Við höfum verið að skoða rannsóknir um muninn á milli landa hvað varðar umhverfisþætti,“ segir Hulda. Hún bendir þar á stóra rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum. ,,Það var til dæmis gerð stór rannsókn í Bandaríkjunum með 6.500 þar sem skoðað var hvernig samskynjun birtist í tengslum við bókstafi og liti. Það kom í ljós að margir tengdu bókstafi við ákveðna liti á vinsælum ísskápaseglum frá merkinu Fisher-Price, sem þessi kynslóð ólst upp með. En þegar þessi sama rannsókn var gerð í Ástralíu komu engar niðurstöður fram sem bentu til þessara tengsla.“
Hrafnhildur bendir einnig á að umhverfisþættir geti haft sórt hlutverk í því hvernig samskynjun þróast. ,,Fólk getur fæðst með samskynjun en það getur öðlast fyrirbærið vegna utanaðkomandi þátta, eins og t.d. eftir heilaáverka,“ segir hún.
Erfðatengsl og gott minni
Það virðist halda í hendur að fólk með samskynjun virðist vera með sterkara minni en gengur og gerist hjá fólki án þess. En erfist samskynjun? Og eru tengls milli samskynjunar og góðs minnis ?
Eiginleikinn að upplifa viðbótar skynjun við ákveðið áreiti virðist hafa erfðaþátt, en það þarf ekki endilega að vera við sama áreiti.
,,Já, það hefur í það minnsta verið búið að skoða nokkrar tegundir af minni og virðast vera tengsl þar á milli,“ útskýrir Hrafnhildur.
Hulda bætir við: ,,Það lýsir sér kannski best, varðandi hugmyndina að fólk með með samskynjun sé með betra minni. Rannsóknir sýna til dæmis að rittákna-lita samskynjarar muna betur orðalista miðað við þau án þessarar tegundar samskynjunar, þar sem bókstafirnir í orðunum kalla fram litina sem þannig stuðlar að betri upprifjun. Sem sagt, nota eiginleika sinn sem ákveðna minnisaðferð. Sá eiginleiki að geta tengt fyrirbæri við t.d. liti eða bragð, gæti hjálpað að skerpa upprifjun.“
Þeir sem vilja taka þátt í rannsókninni, hvort sem þeir upplifa samskynjun eða ekki geta, haft samband við Hrafnhildi (hro30@hi.is) eða Huldu (hbg55@hi.is). Með því að taka þátt hjálpa þáttakendur til við að auka skilning á þessu dularfulla og heillandi fyrirbæri.