Heim Fréttir Aðgengi flóttafólks og hælisleitenda að háskólanámi snúi ekki einungis að því að...

Aðgengi flóttafólks og hælisleitenda að háskólanámi snúi ekki einungis að því að fá umsókn samþykkta

Landssamband íslenskra stúdenta stendur fyrir verkefninu Student Refugees Iceland með það að meginhlutverki að aðstoða flóttafólk og hælisleitendur við umsóknarferli þeirra í háskóla. Mánaðarlega er haldið svokallað „application café“, eða umsóknarkaffi, í Borgarbókasafninu í Grófinni. Þar er boðið upp á bakkelsi og aðstoð við að sækja um háskólanám. „Fyrst og fremst viljum við reyna að aðstoða flóttafólk við að sækja um nám til að reyna að auka hlutfall flóttafólks í háskóla þar sem menntun eru mannréttindi,“ segir Sigríður Helga Olafsson, alþjóðafulltrúi LÍS.

Frá jólakaffi SRI sem haldið var þann 14. desember síðastliðinn

Umsóknarferlið einungis fyrsta skrefið

Sigríður segir að aðgengi fyrir flóttafólk og hælisleitendur snúist ekki bara um að fá umsóknir samþykktar og reyna að gera umsóknarferlið auðveldara heldur líka að gera háskólanámið sjálft aðgengilegra. „Rauði krossinn kannaði aðgengi flóttafólks að háskólanámi á Íslandi 2019 og það voru 48% af flóttafólki sem höfðu áhuga að sækja um nám. 43% af þeim 48% fundu fyrir hindrunum og erfiðleikum við að hefja nám og bara 5% náðu að hefja háskóla“.

Samkvæmt Sigríði eru aðgengi og upplýsingaleysi ekki einu hindranir heldur séu tungumál, fjárráð, gögn og ósýnilegar hindranir einnig helstu hindranir flóttafólks og hælisleitenda þegar kemur að háskólanámi. Skrásetningargjöld, greiðsla fyrir TOEFL-próf og þýðingar á námsgögnum séu dæmi um kostnað sem þessi hópur á oft erfitt með að standa undir. Hvað varðar tungumálið þá sé stærstur hluti grunnnáms í háskóla kenndur eingöngu á íslensku og segist Sigríður ekki vita til þess að algengt sé að nemendum af erlendum standi til boða að fá próf þýdd eða fái að skila verkefnum á öðru tungumáli en íslensku. Einnig þurfi bæði flóttafólk og hælisleitendur að fá fyrri menntun sína metna en hafa í mörgum tilfellum ekki aðgang að slíkum gögnum.

Sigríður bendir þó á hælisleitendur búi við enn fleiri hindranir en flóttafólk. Þar sem hælisleitendur séu ekki með kennitölu standi þeim ekki til boða að fá námslán en flóttafólk hafi rétt á því. Einnig hafi verið erfitt að fá upplýsingar um ferlið fyrir flóttafólk og enn erfiðari fyrir hælisleitendur þar sem ekki er gert ráð fyrir þeim í háskólasamfélaginu á meðan þau bíða eftir dvalarleyfi. „Þau vilja halda áfram með líf sitt hvort sem það er að læra eða eitthvað annað. Eg segi oft að þetta er eins og að millilenda og það er stanslaust verið að aflýsa ferðalagið manns. Ekki er hægt að gera mikið annað enn að bíða og erfitt að gera ráðstafanir á meðan maður veit ekki stöðu málsins sem er skiljanlega mjög óþægileg tilfinning.“

Úkraínskt flóttafólk með sjálfkrafa viðurkenningu á námsferli

Í ljósi ástandsins í Úkraínu býr úkraínskt flóttafólk yfir sjálfkrafa viðurkenningu á fyrri námsferli sínum hjá skrifstofu ENIC/NARIC á Íslandi, sem sinnir akademísku mati á erlendu námi fyrir stofnanir, háskóla, ráðuneyti, einstaklinga og fyrirtæki. ENIC stendur fyrir European Network of Information Centers og er á vegum Evrópuráðsins og UNESCO. NARIC stendur fyrir National Academic Recognition Information Centers og er á vegum Evrópusambandsins. 

Háskóli Íslands hefur gert ákveðnar ráðstafanir fyrir flóttafólk frá Úkraínu sem neyðst hafa til þess að yfirgefa land sitt vegna stríðsátakanna og vilja halda námi sínu áfram. Á heimasíðu HÍ má sjá ítarlegar upplýsingar fyrir úkraínskt flóttafólk. Þar má finna meðal annars upplýsingar á ensku og úkraínsku, upplýsingar um sálfræðiþjónustu HÍ og um enskunámskeið fyrir flóttafólk sem hyggur á háskólanám.

„Við vonum bara að þetta verði líka auðveldara fyrir allt flóttafólk. Það er lika mikilvægt að þetta sé rætt meira af því við tökum á móti fleiri flóttafólki á hverju ári og þurfum að endurspegla hagsmuni þeirra í háskólasamfélaginu svo það geti blómstrað í íslensku samfélagi. Til að tryggja jafnrétti þá er mikilvægt að horfa á núverandi kerfi og spyrja hver eru skilin eftir útundan og það eru klárlega meðal annars fólk með erlendan uppruna,“ segir Sigríður.