Heim Fréttir ,,Af hverju finnst þér mikilvægt að kalla fólk eitthvað sem það vill...

,,Af hverju finnst þér mikilvægt að kalla fólk eitthvað sem það vill ekki láta kalla sig?“

Sigríður Hagalín og Anna Sigríður flytja erindi um skyldur RÚV til íslenska málsins
Sigríður Hagalín og Anna Sigríður flytja erindi um skyldur RÚV til íslenska málsins

„Það er mikilvægt að mæta fólki af virðingu, miklast ekki um of af sinni eigin afstöðu og hafa fleiri hugmyndir af málinu“, sagði Sigríður Hagalín. Anna Sigríður, málfarsráðunautur og Sigríður Hagalín, fréttamaður, fluttu erindi á Málvísindakaffi sl. föstudag á vegum Íslenska málfræðifélagsins. Málvísindakaffi eru fundir fyrir alla áhugasama, þar sem rætt er um tungumálið í alls kyns vísindalegum og fræðilegum skilningi. Erindið fjallaði um skyldur RÚV gagnvart íslensku tungumáli og hvað RÚV væri alltaf að krukka í málið okkar. Rætt var um nýtt hugtak í málstefnu RÚV en það kallast inngildandi mál, það að taka tillit til allra og passa að þau eigi pláss í málinu.

Oft gleymist að blaðamennska er bókmenntagrein og hefur því fagurfræðilegar skyldur gagnvart tungumálinu. Málstefna RÚV eru ákveðin fyrirmæli um gott og vandað mál í Ríkisútvarpi. Stefnan leggur áherslu á að bjóða upp á fræðslu á íslensku í sjónvarpi og útvarpi, að styrkja stöðu tungumálsins og að talsetja og framleiða efni á íslensku.

Fyrsta málstefnan var skráð árið 1985 og stóð óbreytt til ársins 2010, síðar meir var ný málstefna samþykkt árið 2018 og er enn í gildi. Anna Sigríður leggur áherslu á að þó að nýjar málstefnur séu teknar í gildi þýðir það alls ekki að við séum hætt að nota gott og vandað mál heldur vantar okkur nýjar leiðbeiningar. Málfari hefur verið breytt, þar á meðal sem inngildandi mál og jafnréttisstefna hefur verið tekið upp í málstefnuna.

RÚV ekki lengur þetta ægivald

Sigríður Hagalín minnist þess hvernig RÚV leit á ákveðinn hátt niður á almenning hér áður fyrr. Hún hóf fyrst störf hjá Ríkisútvarpinu árið 1999 og lýsir því hvernig starfsfólk var oft uppfullt af hroka og stolti. Sigríður viðurkenndi að hafa að ákveðnu leyti litið á sína notkun á tungumálinu æðri en notkun almennings á málinu. RÚV var eitt sinn þetta ægivald þegar kom að íslenskri tungu, Ríkisútvarpið var stofnun sem raunverulega sagði fólki hvernig því bar að nota málið og því lítil furða að starfsfólk upplifði sig oft í rauninni æðra almenningi.

Hún minnist þess einnig að fréttamenn notuðu ekki viðtalspunkta ef fólk talaði málfarslega vitlaust, því var oft erfitt að ræða við ungt fólk og útlendinga og ákveðin elítustemmning myndaðist.

Það telst mikil synd að RÚV hafi tileinkað sér slík vinnubrögð, það eru gífurlega dýrmæt verðmæti í því að eiga heimildir af öllum hópum þjóðfélagsins en þær teljast ansi fáar frá fyrri tímum. RÚV ber skylda til að endurspegla alla hópa þjóðfélagsins. Sigríður talar um að í dag leggur RÚV sig fram við að rækja það hlutverk sitt.

Orð Önnu breyttu hugsunarhætti Sigríðar

Blaðamenn RÚV leyfðu sér að nota hin ýmsu orð til þess að lýsa fólki eða hópum samfélagsins, enda töldu þeir sig vera að nota fínt og lýsandi mál. Þetta leiddi til þess að margir urðu ósáttir og særðir yfir vinnubrögðum Ríkisútvarpsins en sjaldan var tekið mark á þeim kvörtunum.

Sigríður tók eitt sinn viðtal við Önnu Kristjánsdóttur eða ,, Önnu Vélstjóra“, eins og hún er oft kölluð. Anna er talin vera ein þeirra fyrstu sem steig út sem trans kona og hlaut því mikla athygli. Sigríður á þá að hafa skilgreint Önnu sem „kynskipting“ í greininni sem hún vann út frá viðtalinu.

Anna hafði samband við Sigríði í kjölfarið og var ósátt við þetta orðalag. Sigríður lýsir því hvernig hún taldi um gott og lýsandi orðalag vera að ræða og rífst við Önnu á móti. „Ég er ekkert alltaf að skipta um kyn“, segir Sigríður að Anna hafi sagt og heldur áfram að rífast við hana. „Af hverju finnst þér mikilvægt að kalla fólk eitthvað sem það vill ekki láta kalla sig?“ sagði Anna síðan. Á þessu augnabliki rann skyndilega upp fyrir Sigríði hversu afkáralegt það var af sér að taka skilgreiningarvaldið af einhverri manneskju og leyfa henni ekki að njóta þess frelsis að skilgreina sig sjálfa. Sigríður talar þá um að hafa fallist á beiðni Önnu og lagfært greinina af virðingu við hana.

Mergur málsins að sýna virðingu

Sigríður talar um að í dag hafi RÚV allt önnur viðhorf til fréttamennsku, nú sé mergur málsins að gefa öllum pláss, vera ekki of drambsamur eða of fastur á sinni eigin afstöðu en það allra mikilvægasta sé að mæta öllum af virðingu.

Sigríður Hagalín staðhæfir einnig að nú reyni RÚV að taka mark á öllum kvörtunum sem þeim berast, þau minni sjálf sig reglulega á að þau eigi að starfa í almannaþágu og því sé mikilvægt að hlusta og vera opin fyrir því að bæta sig.