Heim Fréttir Alþjóðleg tækifæri fyrir alla

Alþjóðleg tækifæri fyrir alla

MYND/Kristinn Ingvarsson

Árný Lára Sigurðardóttir, verkefnastjóri Alþjóðasviðs Háskóla Íslands, segir aðsókn í skiptinám hafa aftur aukist eftir Covid-19. Þá séu margvíslegar leiðir sem nemendur geta nýtt sér vilji þeir komast út fyrir landsteinana.

Árný nefnir breyttan veruleika varðandi skiptinám þar sem mikil rafvæðing hefur átt sér stað í kjölfar Covid-19. „Þetta er svolítið breyttur veruleiki fyrir okkur. Það er mikið af upplýsingum og námið er orðið meira rafrænt.“

Árný Lára Sigurðardóttir

Umsóknarferlið er orðið auðveldara fyrir nemendur vegna nýrrar rafrænnar umsóknar sem tók gildi eftir Covid. „Við tókum í notkun nýtt rafrænt umsóknarkerfi sem hefur auðveldað nemendum að sækja um og nálgast upplýsingar,“ segir Árný.

Þá séu mörg önnur alþjóðleg tækifæri sem standa til boða henti skiptinám ekki. „Við erum ekki endilega að senda alla út í fullt skiptinám, heldur erum við líka að senda nemendur í sumarnám, styttri dvöl á meðan á náminu stendur eða jafnvel starfsþjálfun,“ segir Árný.

Árný nefnir einnig mikinn vilja til að alþjóðleg tækifæri séu aðgengileg fyrir alla nemendur háskólans. „Við viljum senda út og aðstoða eins marga nemendur og við mögulega getum. Við viljum líka að þetta sé aðgengilegt fyrir alla nemendur háskólans. Þá fer það svolítið eftir þörfum nemenda og hvernig námið er sett upp hvort við erum að senda í misseri, styttri dvöl eða starfsþjálfun.“

Háskólasamfélagið er mjög fjölbreyttur hópur, til að mynda eru einhverjir nemendur með fjölskyldur eða nemendur sem þurfa aukinn stuðning vegna fötlunar eða heilsufars. Alþjóðasviðið vill geta mótað skiptinám eða starfsnám eftir þörfum nemenda og eru til styrkir til þess. „Við erum með viðbótarstyrki bæði til inngildingar og svo fötlunar- og sjúkdómsstyrk fyrir nemendur, þannig við erum að leitast við að gera þetta almennt notendavænna og auðveldara fyrir nemendur að fara út,“ segir Árný.

MYND/Kristinn Ingvarsson

Ég held að þetta sé ómetanlegt tækifæri sem flestir ættu að stökkva á

Brynjólfur Skúlason, skiptinemi við háskólann í Amsterdam (Universiteit van Amsterdam), segir skiptinám vera einstakt tækifæri til að öðlast nýja sýn á bæði námið og heiminn. „Ég held að þetta sé ómetanlegt tækifæri sem flestir ættu að stökkva á af því þetta getur haft ómetanlegan ávinning,“ segir Brynjólfur.

Brynjólfur er að læra almenn málvísindi og ákvað að vera heilt ár í skiptinámi. Þá myndi hann tvímælalaust mæla með skiptinámi fyrir aðra nemendur. „Þetta er með betri ákvörðunum sem ég hef tekið,“ segir Brynjólfur.

Brynjólfur Skúlason

Brynjólfur segist hafa enduruppgötvað ástríðu sína fyrir námsefninu. Hann segir magnað að kynnast nýju fólki frá öllum heimshornum og að koma sér inn í nýja menningu. Brynjólfur segist vera búinn að þurfa að horfast í augu við ákveðin meningarleg norm á Íslandi og nefnir sem dæmi stundvísi. „Það er magnað hvað Íslendingar eru óstundvísir. Það er búið að reynast mér erfiðast að verða stundvís manneskja. Fólk sem þekkir mig veit að ég get verið óstundvís og það er eitthvað sem mér finnst svolítið samþykkt á Íslandi. Það býst enginn við því að þú mætir á slaginu, það mæta allir 3 mínútur yfir“.

Skiptinámið opnaði augun fyrir möguleikum og tækifærum

Varðandi umsóknarferlið segir Brynjólfur umsóknina hafa verið þægilega en það sé meiriháttar ferli að fara í skiptinám. „Það voru atriði sem þurfti að leysa úr en það var aldrei neitt vandamál að leysa úr þessum atriðum,“ segir Brynjólfur og var hann í góðum samskiptum við Alþjóðasviðið.

Brynjólfur segir reynslu sína af skiptináminu hafa opnað augu sín fyrir hvað hann hafi marga möguleika og hvernig tækifærin leynast um allan heim. „Ég myndi segja að skiptinámið hafi kynnt mig fyrir hvað eru mörg tækifæri út í heiminum og hvað heimurinn er manni opinn. Ef manni langar að breyta til er það auðvelt í nútímaheimi þar sem það er auðvelt að ferðast á milli landa.“

Aðspurður út í framhaldið segist Brynjólfur vera að pæla hvert hann eigi að fara næst. „Ég er rosalega bjartsýnn á það sem tekur við næst. Því mér finnst að núna þegar ég er búinn að stíga þetta skref, að flytja til Hollands í eitt ár, þá er ekkert sem ég get ekki gert.“