Árshátíð SHÍ verður haldin hátíðlega þann 21. febrúar á Hlíðarenda. Þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem árshátíð er haldin fyrir alla nemendur Háskólans og er þemað í takt við það, frumsýning. Markmið árshátíðarinnar er að kjarna félagslífið innan skólans og því er hún opin öllum nemendum.
Skipuleggjendur viðburðarins segja undirbúninginn hafa gengið vel, spennan sé mikil og að viðtökurnar séu vonum framar. Arent Orri Claessen, forseti Stúdentaráðs og einn skipuleggjanda, segist spenntur fyrir þessari frumraun í árshátíðarhöldum.