Heim Fréttir Aukið álag á Þjóðarbókhlöðunni

Aukið álag á Þjóðarbókhlöðunni

Á Þjóðarbókhlöðunni má finna fyrir því að nú er stutt í lok annar. Nú sitja nemendur lengur og það þarf að panta hópvinnuherbergi með nokkurra daga fyrirvara. 

Þjóðarbókhlaðan eða Landsbókasafnið býður upp á lærdómsaðstöðu fyrir nemendur Háskóla Íslands á öllum hæðum. Þar er einnig hægt að panta hópvinnuherbergi fyrir að lágmarki 3 nemendur. Hópvinnuherbergin eru þrjú og eru á 3. og 4. hæð safnsins. 

Karólína Rós Ólafsdóttir, starfsmaður Þjóðarbókhlöðunnar, segir að aukið álag sé á hlöðunni. „Það er greinilegt að það eru miklu fleiri sem koma og sitja að læra. Nemendur dvelja líka lengur yfir daginn. Fyrr á önninni komu nemendur helst að sækja bækur en núna situr fólk lengur á safninu.“

Einnig tekur Karólína eftir því að nýr hópur er byrjaður að sækja safnið. „Margir virðast vera að koma að nota safnið í fyrsta sinn. Nýnemar spyrja hvar má læra og hvar má tala. Þau hafa þá ekki nýtt sér safnið hingað til á önninni.“

Nú fer hver að verða síðastur að panta hópvinnuherberg

Á heimasíðu Þjóðarbókhlöðunnar er hægt að panta hópvinnuherbergi. Á bókunnarsíðunni sést að þau eru næstum uppbókuð nokkra daga fram í tímann. 

Það er þó ekki alltaf tilfellið. „Á venjulegum tíma yfir önnina er yfirleitt hægt að bóka þau inn með dags fyrirvara,“ segir Karólína.

Samkvæmt Karólínu er mikilvægt að muna að staðfesta bókunar tölvupóstinn. „Algengt vandamál sem nemendur lenda í er að fólk gleymir að staðfesta bókunina sína í hópvinnuherbergið í tölvupósti. Það eru auðvitað alltaf mikil vonbrigði þegar þau mæta og þá er allt fullt.“