Heim Fréttir „Bara til að vera með belti og axlabönd“ – SHÍ stofnar einkahlutafélag

„Bara til að vera með belti og axlabönd“ – SHÍ stofnar einkahlutafélag

Á síðasta stúdentaráðsfundi lagði forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) fram tillögu að stofnað yrði einkahlutafélag til að sjá um rekstur Októberfest. Tillagan varð til eftir fyrirspurn rektor Háskóla Íslands um rekstrarfyrirkomulag Októberfest. Sú tillaga var samþykkt af Stúdentaráði. Forseti Stúdentaráðs segir stofnun félagsins tryggja að Stúdentaráð muni aldrei hljóta skaða af rekstri hátíðarinnar. Röskva telur stofnunina ótímabæra.

Arent Orri J. Claessen, forseti SHÍ, lagði fram tillögu um stofnun einkahlutafélagsins á stúdentaráðsfundi 25. september síðastliðinn. Einkahlutafélagið verður 100% í eigu SHÍ og er ætlunin að nýta félagið til reksturs á útihátíðinni Októberfest. Arent Orri telur þetta næsta skref eftir riftun á samning við verktakafyrirtækin Paxal og Vini Hallarinnar í vor en SHÍ tók þá við uppsetningu og skipulagi hátíðarinnar. 

Röksemdafærslan fyrir tillögunni er að „tryggja að það séu gerðir ákveðnir varnaglar til að Stúdentaráð muni aldrei lenda í neinu, eða takmarka tjón sem gæti orðið“ segir Arent Orri. Þá bendir hann á að Októberfesti skili aldrei neinu öðru en hagnaði. „Það er ekkert sem bendir til þess að Stúdentaráð myndi hafa skaða af þessu [Októberfest], þetta er bara til þess að vera með belti og axlabönd.“

Útihátíðin Októberfest er haldin á hverju ári.
Útihátíðin Októberfest er haldin á hverju ári.

Ekki nægar upplýsingar

Röskva lagði fram bókun á fundinum en í henni kemur fram að „fulltrúar Röskvu telja það ótímabært að tillaga um stofnun sérstaks félags í kringum Októberfest sé til afgreiðslu.“

Katla Ólafsdóttir, oddviti Röskvu, kaus gegn tillögunni en segist þó ekki vera gegn hugmyndinni um stofnun félagsins. Ekki liggja fyrir nægar upplýsingar um fyrirkomulag félagsins, til að mynda hverjir eru í stjórn og samþykktir. Þá sé einnig varhugavert að bjóða sig fram í stúdentaráð og enda í framkvæmdastjórn fyrirtækis.

Í hræðilegu tilfelli hefði SHÍ verið í 30 milljóna króna mínus

Júlíus Viggó Ólafsson, lánasjóðsfulltrúi SHÍ, gaf í skyn í öðru viðtali við blaðamann Stúdentafrétta að hagnaður hátíðarinnar hafi verið mikill. Arent Orri segir að veltan hafi verið margfalt meiri en undanfarin ár en talan væri ekki staðfest. Því hafi rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, spurt hvaða ráðstafanir væru fyrirhugaðar til að tryggja fjárhag SHÍ. Stofnun félagsins hafi verið lausnin.

Ekki er búið að ákveða hvernig arðinum verður ráðstafað en Arent Orri segir nokkrar hugmyndir hafa vaknað. Sem dæmi væri hægt að opna tímabundið verslun í Háskólabíói en útibúi Hámu var lokað um síðustu áramót.

Katla segir það jákvætt að SHÍ hafi pening til að sinna hagsmunabaráttu stúdenta. Þrátt fyrir að hátíðin í ár hafi farið vel þá hefði ráðið getað, í hræðilegu tilfelli, endað í 30 milljón króna mínus.