Hætta skapast ítrekað á stúdentagörðum þegar bílum er lagt utan stæða, jafnvel fyrir innkeyrslum. Á dögunum barst íbúum Vetrargarðs tölvupóstur frá skrifstofu Stúdentagarða. Þar sem brýnt var fyrir íbúum að aðeins mætti leggja í merkt stæði, öryggisins vegna.
Fylgdu tölvupóstinum fjölmargar myndir af bílum sem lagt var ólöglega, skyggja á umferð og þrengja innkeyrsluna. Einnig hafa reglulegir póstar í facebook-hópi fyrir íbúa Vetrargarðs sýnt glöggt að þetta er viðvarandi vandi.
„Ég sé þetta sem vanvirðingu við aðra íbúa“
Nína Eck garðprófastur í Vetrargarði deilir upplifun sinni af vandamálinu. „Ég hef búið í þessu húsi í 3 ár og á stúdentagörðum í 4 ár. Allan þann tíma hafa komið tímabil þar sem fólk virðist leggja hvar sem er. Inn á milli er svo allt með kyrrum kjörum. Þetta virðist vera einskonar hjarðhegðun sem byrjar með einum og dreifir úr sér.“
Nínu finnst samt áhugavert að það séu ekki endilega eigendur dýrustu bílanna sem sýni af sér þessa hegðun. Hún talar um að þetta séu samt oft sömu bílarnir sem sé ólöglega lagt. Hún hefur spáð mikið í það hvað liggi að baki þessari hegðun. „Ég sé þetta sem vanvirðingu við aðra íbúa. Sá sem leggur bíl utan stæðis gefur þau skilaboð að hans tími sé meira virði en annarra.“
Enginn undanskilinn reglunum
Þegar Nína tók við sem Garðprófastur einsetti hún sér að vinna að því að gera samfélagið í Vetrargarði jafnara og aðgengilegt öllum. Hún hóf því að setja þræði inn á facebook-hóp Vetrargarðs á ensku með leiðbeiningum. Hún leggur sig einnig fram við að nálgast nýja nágranna og bjóða þeim í facebook hópinn.
Henni finnst mikilvægt að krafan um að fylgja lögum og reglum hvíli jafnt á öllum íbúm. Það stuðli að jafnara samfélagi. „Það þýðir að það verður að vera minni gróði fólginn í því að leggja utan stæða. Vegna þess að við töpum öll á því til lengri tíma (sbr. það sem ég sagði um hjarðhegðunina).“
Nína hefur jafnvel stundum sett límmiða á rúður bíla utan stæða. Hún gerir jafnframt mikla kröfu til Félagsstofnunar Stúdenta um að bílar sem ógna öryggi vegfarenda séu dregnir í burtu.
Nína segist oft taka ljósmyndir af stöðubrotum ásamt því hafa samband við eigendur. Hún kveðst líka setja færslur inn á facebook hópinn með myndum.
„Þetta er bara einn liðurinn í þessu markmiði mínu. Ég hef lítið á mitt hlutverk meira sem stuðningsaðila og „málamiðlara“ en nokkurn tíma húsvörð. Mig langar að öllum líði eins og þau geti leitað til mín. Að ég geti gefið fólki þá tilfinningu að á þau sé hlustað og að þau skipti máli. Allt of margir á Íslandi upplifa nefnilega að reglurnar gildi ekki fyrir alla.“