Nemendur sem skilgreina sig með einhverfu geta fengið jafningjastuðning í gegnum samkomur Einhuga. Fundirnir eru fjórum sinnum á önn, markmið þeirra er stuðningur og að efla félagslega samveru.
Eyrún Halla Kristjánsdóttir, sér um samkomur Einhuga og segir fundina skapa vettvang fyrir nemendur á einhverfurófi til að hittast og miðla reynslu sinni. Fundirnir hafa verið haldnir í tvö ár og að hennar sögn gengið vel. „Það eru sumir sem hafa grun um að vera á einhverfurófi en hafa ekki fengið greiningu. Ef fólk telur sig vera á rófinu er það velkomið, greining er ekki krafa,” segir Eyrún.

Aðgangur fullorðinna að einhverfugreiningu er takmarkaður. Sálfræði- og læknisþjónustan, SÓL, greinir til 25 ára aldurs. Landspítali greinir einnig en aðeins ef geðvandi er til staðar. Sjálfstætt starfandi ráðgjafar gera 230 athuganir á ári, en það eru einhverfuathuganir en ekki fullgildar greiningar. Því er stuðningsnet líkt og Einhugar mikilvæg aðstoð við fólk í slíkum aðstæðum.
Eyrún, sem er nemi í félagsráðgjöf, lagði upphaflega fram hugmyndina sem nýsköpunarverkefni í náminu. Hugmyndin þróaðist áfram og að lokum urðu fundirnir að veruleika með aðstoð Einhverfusamtakanna.
Fundirnir fara fram þriðja þriðjudag hvers mánaðar í Veröld – húsi Vigdísar. Umræðuefni fundanna er fjölbreytt og mótast oft af því sem nemendur eru að fást við hverju sinni í náminu. Mæting hefur verið breytileg, þegar mest var hafa tólf manns mætt.