Heim Fréttir „Björgunarsveit mögulega besta ákvörðun lífs þíns“

„Björgunarsveit mögulega besta ákvörðun lífs þíns“

Ísabella Sól Gunnarsdóttir
Ísabella læknanemi

„Ég þarf ekki að mæta, ég vil mæta“, segir Ísabella Sól Gunnarsdóttir, læknanemi, þegar hún er spurð hvað hún þurfi að eyða miklum tíma í björgunarsveitarstarfið. Ísabella er á fyrsta ári í læknisfræði í Háskóla Íslands og er auk þess á fullu í björgunarsveitarstarfi með Hjálparsveit skáta í Kópavogi.

Ísabella segir að það gangi misvel að vera bæði í björgunarsveit og læknanámi. „Ég hef til dæmis ekkert getað mætt í Grindavík síðustu daga og nú ætti ég að vera uppá Langjökli ef ég væri ekki að læra fyrir lokapróf. Ég hafði ekki tíma fyrir þessa ferð og stundum þarf maður að fórna björgunarsveitastarfinu fyrir námið,“ segir Ísabella.

„Stundum fer ég frekar í ferð með björgunarsveitinni heldur en að læra fyrir próf. Ég fór til dæmis í Þórsmörk um daginn þó ég hefði kannski frekar átt að vera að læra fyrir eðlisfræðipróf“ segir Ísabella og hlær. Hún segir að það hafi samt bara gengið vel í eðlisfræðiprófinu.

Björgunarsveitarstarfið hjálpar í náminu

„Starfið í björgunarsveitini á alveg hundrað prósent eftir að hjálpa mér náminu og seinna líka í starfinu sem læknir“ segir Ísabella. Hún nefnir að fólk læri að vera rólegt í erfiðum aðstæðum, vinna skipulega undir álagi og að fylgja fyrirmælum. „Það hjálpar manni bara í öllu háskólanámi og í lífinu, að starfa í björgunarsveit“ segir Ísabella.

„Þegar fólk spyr mig hvað ég þurfi að mæta oft í björgunarsveitina og hvað ég þurfi að eyða miklum tíma í starfið, þá er það fólk ekki að hugsa um björgunarsveitarstarf á réttum forsendum“, segir Ísabella. Hún hugsar um hjálparsveitarstarfið út frá því hvenær hún kemst, ekki hvenær hún þarf að fara. Hún segist alltaf mæta í hjálparsveitarstarfið þegar hún kemst. Hjálparsveitin er engin skuldbinding eins og fólk heldur, segir hún. Sjálfkrafa gerðist það hjá henni, segir hún, að hún hafi þörf fyrir að mæta því starfið sé svo skemmtilegt. Hún segir að henni langi að setja allan sinn tíma í björgunarsveitina en það sé ekki alveg hægt í læknanámi.

Ísabella Sól Gunnardóttir, læknanemi á 1.ári

Kennarar sveigjanlegir

Ísabella segir að það sé ekkert vandamál að fara útköll., Kennarar séu yfirleitt sveigjanlegir varðandi skil á verkefnum ef hún þarf að fara í útkall. Hún segist samt ekki fá neinn afslátt á náminu og að stundum komist hún ekki í útkall, eins og til dæmis í Grindavík núna, því að það sé mikið að gera í náminu.

Ísabella segir að það sé alveg hægt að gera bæði, vera í háskólanámi og starfa í björgunarsveit. Hún þekkir nokkra háskólanema sem eru starfandi í björgunarsveit. Hún mælir með að háskólanemar starfi í Björgunarsveit og segir að það geti mögulega verið besta ákvörðun lífs þíns.