Heim Fréttir Bráðabirgðabílastæði til margra ára

Bráðabirgðabílastæði til margra ára

Eflaust hafa flestir lent í því einhvern tímann á ævinni að keyra ofan í holu, en þegar komið er inn á malarstæði Háskóla Íslands aukast líkurnar á því talsvert.

Hjalti Már Stefánsson, garðyrkjustjóri háskólans segir stóra malarbílastæðið fyrir framan skeifu Aðalbyggingu háskólans lítið hafa breyst frá upphafi og að ólíklegt sé að það verði nokkurn tímann gert að máluðu og malbikuðu bílastæði.

Að sögn Hjalta var malarbílastæðið í raun bráðabirgðalausn en síðan þá eru liðin þó nokkur ár. Hjalti sér ekki fyrir sér að malarbílastæðinu verði breytt í malbikað bílastæði: „Nei ég held ekki, ég held að þetta sé frekar á förum heldur en hitt, þó það veiti ekki af þessu stæði.“ Þá nefnir hann að bílastæðið sé ekki í eigu háskólans heldur borgarinnar og framtíðarsýnin sé líklega sú að það verði ekkert bílastæði þarna.

Samkvæmt vef hi.is er nemendafjöldi háskólans rúmlega 15.000 og eru um 2000 stæði á öllu háskólasvæðinu að sögn Hjalta. Þá megi gera ráð fyrir að um 250 bílar komist fyrir á stóra malarstæðinu sé það nýtt til fulls. Þeir sem hafa lagt á bílastæðinu á háannatíma vita þó að það nýtist oft mun verr þar sem engar línur eru til að leiðbeina fólki þegar það leggur sem endar í skrautlegum lagningum.

Hjalti nefnir að það geti reynst erfitt að koma í veg fyrir að fólk leggi þar sem ekki á að leggja. Það getur gert stærri bílum, eins og sorp- og vörubílum, erfitt að komast fram hjá illa lögðum bílum með þeim afleiðingum að þeir komast ekki leiðar sinnar.

Því er betra að reyna að samnýta bílaferðirnar, ímynda sér að það séu hvítar leiðbeiningarlínur og leggja eins vel og skipulega og hægt er, til að nýta plássið sem best, á meðan það er enn til staðar.