Fylgi við breska Íhaldsflokkinn er hrunið og flokkurinn klofinn. Frjálshyggjuarmur flokksins undir stjórn Lizz Truss hefur nú verið hrakinn frá völdum. „Frjálshyggjumenn hafi þó ekki sagt sitt síðasta, og við sjáum ekki fyrir endann á þessum átökum innan Íhaldsflokksins,‟ segir Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði í viðtali við Stúdentafréttir.
Ný ríkisstjórn er nú tekin við eftir hrakfarir Liz Truss forsætisráðherra sem sagði af sér eftir aðeins 45 daga í embætti. Rishi Sunak tók við keflinu sem forsætisráðherra með Jeremy Hunt við hlið sér sem fjármálaráðherra. Hunt kynnti á dögunum efnahagsstefnu nýrrar ríkisstjórnar í ræðu sem Bretar kalla „Autumn statement‟ eða „Haust-yfirlýsingu‟, en í henni felst algjör kúvending frá efnahagsstefnu Liz Truss.
Þann örlagaríka dag 23. september 2022 kynnti Kwasi Kwarteng, þá fjármálaráðherra í stjórn Liz Truss, ný fjárlög fyrir breska þingið. „Smáfjárlögin‟ eins og þau voru kölluð þá („mini-budget‟) gerðu ráð fyrir töluverðar skattalækkanir, meðal annars afnám hátekjuskatts, en þær aðgerðir átti að fjármagna með aukna skuldsetningu breska ríkisins. Þessar hugmyndir féllu í grýttan jarðveg hjá almenningi en sömuleiðis hjá fjármálamörkuðum og ýmsum stofnunum. Venjan í Bretlandi er sú að ný fjárlög eru borin undir sjálfstæða eftirlitsstofnun, Office for Budget Responsibility (OBR), sem sér um að meta fjárlögin og notar þau sem grundvöll í efnahagsspám sínum. Sú staðreynd að ríkisstjórnin ákvað að fara meðvitað fram hjá þessari stofnun varð ekki til þess að draga úr tortryggninni.
Daginn eftir að nýju fjárlögin voru kynnt féll breska pundið um 5% gagnvart dollaranum og náði þar með lægsta gengi sitt síðan 1985. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sá sig knúinn til þess að vara við fjárlögunum sem hann taldi munu „líklega auka misskiptingu‟ og Seðlabanki Englands neyddist til að grípa til aðgerða og kaupa ríkisskuldabréf í stórum stíl til að róa markaðinn. Fylgi við Liz Truss og Íhaldsflokkinn hríðféll eftir þessari uppákomu en hann hefur sjaldan mælst lægri.
Glundroðinn endaði með því að Liz Truss gat ekki annað en sagt af sér og Rishi Sunak tók við. Nýji efnahagspakkinn sem Jeremy Hunt kynnti í „haust-yfirlýsingunni‟ er öllu hófsamari: þar sem skuldsetning breska ríkisins er nú þegar í sögulegu hámarki þykir flestum íhaldsmönnum ekki forsvaranlegt að auka enn frekar á hana með skattalækkunum. Þvert á móti er Hunt að boða skattahækkanir, sérstaklega hjá tekjuhæstum heimilum. Um leið er hann að boða einhvers konar skjaldborg utan um lægstu tekjuhópana sem og utan um félagslegar greiðslur og eftirlaun, og sérstakur skattur á olíufyrirtækin verður hækkaður.
Með þessu hefur Sunak tekist að lægja öldurnar að mestu leyti en fylgi Íhaldsflokksins mælist enn í sögulegu lágmarki. Hvað er framundan fyrir Íhaldsflokkinn og í breskum stjórnmálum almennt? Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði við HÍ fer yfir málin hjá Stúdentafréttum.
Tvöfaldur klofningur
„Íhaldsflokkurinn er klofinn og þar eru tveir klofningsásar: efnahagsmálin annars vegar og Evrópumálin hins vegar. Þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit var tilraun til að leysa úr innanhúsdeilu hjá Íhaldsflokknum og við vitum hvernig hún fór. Nú er hins vegar annar ágreiningur uppi og hann snýst um efnahags- og skattastefnu. Harði frjálshyggjuarmurinn innan flokksins varð ofan á þegar Liz Truss komst til valda en sú stefna hefur nú beðið skipbrot. Meirihluti þingmanna var einfaldlega ekki fylgjandi þeirri róttæku efnahagsstefnu sem hún ætlaði að reka og kom henni bara frá, en með þessu hefur breska þingið sýnt hversu mikinn styrk það býr yfir. Rishi Sunak talar nú fyrir hófsamari miðjustefnu og sú stefna virðist hafa sigrað í bili, en ég held að frjálshyggjuarmurinn hafi ekki sagt sitt síðasta, og að við sjáum ekki fyrir endann á þessum átökum innan Íhaldsflokksins.‟
Liz Truss hefur stundum verið líkt við Margaret Thatcher og stefna hennar minnir sannarlega á tímabil nýfrjálshyggjunnar sem Margaret Thatcher og Ronald Reagan stóðu fyrir á níunda áratug síðustu aldar. En nú er öldin önnur: „Bretland er í svo miklum efnahagserfiðleikum að það er erfitt að sjá fyrir sér að efnahagsstefna sem byggir á skattalækkunum nái hljómgrunn í samfélaginu, sérstaklega þegar um ræðir skattalækkanir á ríkustu einstaklingum og stórfyrirtækjum, meðan það er verið að skera niður í velferðarkerfinu og frysta laun opinberra starfsmanna,‟ segir Baldur.
Fylgishrun og svartar efnahagsspár
Eftirlitsstofnunin OBR (Office for Budget Responsibility) gaf nýlega út mjög svartsýna efnahagsspá fyrir Bretland: kreppuástand fram til lok árs 2024. Verðbólga mælist nú 11% og OBR spáir 7% samdrætti í kaupmætti heimilanna á næstu tveimur árum. Næstu þingkosningar eru eftir 2 ár en Verkamannaflokkurinn mælist með 22% forskot á Íhaldsflokknum. Verður Íhaldsflokknum bjargað? Baldur vill ekki afskrifa hann enn sem komið er:
„Vika er langur tími í pólitík, og það getur margt gerst á tveimur árum. Ýmislegt gæti orðið til þess að íhaldsflokknum takist að þjappa þjóðinni saman og auka þannig fylgið sitt. Við gætum séð stigmögnun stríðsátaka í Úkraínu til dæmis, eða hneykslismál hjá Verkamannaflokknum. Nýi forsætisráðherrann gæti sannað sig með einhverjum hætti. Að því sögðu hefur Íhaldsflokkurinn misst trúverðugleika í efnahagsmálum. Þetta minnir óneitanlega á það sem gerðist á árunum 1992-97 þegar ríkisstjórn John Major missti allan trúverðugleika í efnahagsmálum, sem endaði með því að Tony Blair vann stórsigur.‟
Ásamt skattahækkunum hefur Jeremy Hunt boðað töluverðan niðurskurð í ríkisútgjöldum. Sá niðurskurður á hins vegar ekki að koma til framkvæmda fyrr en 2024 en stjórnvöld vonast til þess að kreppan verði þá að baki. En er þetta ákveðin leið til að kasta óvinsælum aðgerðum yfir til Verkamannaflokksins eins og heitri kartöflu?
„Svona hefði Margaret Thatcher ekki stjórnað að minnsta kosti. Hún hefði farið strax í niðurskurð til að koma jafnvægi á ríkisfjármálum, en nú er ætlunin frekar að leysa málið með lántöku. Vandinn er að það er nú þegar búið að sýna svo mikið aðhald í ríkisrekstri að það er varla hægt að fara miklu lengra með niðurskurðarhnífinn. Laun hjúkrunarfræðinga hafa meira og minna verið fryst í tíu ár. Hins vegar er skattheimta í Bretlandi almennt séð mun minni en hún er á Íslandi, þannig að það er alveg svigrúm til að hækka skatta á þá efnuðustu, ásamt stórfyrirtækjum. Ég held að Íhaldsflokkurinn sé hins vegar frekar tregur til að fara þá leið.‟
Sjálfstæði Skotlands ekki á dagskrá… í bili.
Skoski þjóðarflokkurinn er hvergi nærri hættur því að berjast fyrir sjálfstæði Skotlands. Nicola Sturgeon leiðtogi flokksins vill fá aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði, en Hæstiréttur Bretlands úrskurðaði nýlega gegn því. Nicola Sturgeon brást við þessu með því að lýsa yfir að næstu þingkosningar yrðu þá um leið kosningar um sjálfstæði Skotlands. Gætu ófarir Íhaldsflokksins verið vatn á myllu sjálfstæðissinna í Skotlandi?
„Við getum ekki útilokað að það gerist í framtíðinni en hingað til hafa ekki verið nein merki um slíkt. Sjálfstæðissinnum í Skotlandi hefur ekki vaxið mjög ásmegin að undanförnu ef eitthvað er að marka skoðanakannanir, og Íhaldsflokkurinn mun ekki gefa heimild fyrir slíka þjóðaratkvæðagreiðlsu nema hann sé nauðbeygður til þess. Efnahagserfiðleikar geta leitt til þess að menn þjappi sig frekar saman og ýti þessa deilu til hliðar til að einbeita sér að öðru sem talið er vera meira aðkallandi.‟
Brexit-deilan olli miklu umróti í breskum stjórnmálum á sínum tíma en orkukreppan sem hrjáir Evrópu um þessar mundir hefur aukið enn frekar á glundroðann. Valdatíð Liz Truss var sú stysta í sögu breskra stjórnmála og þrátt fyrir að Rishi Sunak hafi tekist að lægja öldurnar mun Íhaldsflokkurinn eiga á brattann að sækja fram að næstu kosningum. Nú þegar heyrast raddir um að nýr flokkur hægra megin við Íhaldsflokkinn gæti séð sér leik á borði ef fylgið skilar sér ekki til baka. Eins manns dauði er annars brauð…