Heim Fréttir Ekki verður lengur heimilt að halda sjúkrapróf haustannar í maí

Ekki verður lengur heimilt að halda sjúkrapróf haustannar í maí

Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Búið er að fella úr gildi heimild þess að halda sjúkrapróf haustannar í maí. Var það gert á síðasta fundi Háskólaráðs, sem fram fór 2. febrúar. Þar var tillaga á breytingu á reglum Háskóla Íslands varðandi dagsetningar á kennslualmanaki samþykkt.

Málið á sér nokkurn aðdraganda en tillaga um að Stúdentaráð og fulltrúar stúdenta í Háskólaráði myndu beita sér fyrir breytingunum var lögð fyrir Stúdentaráð í október 2021. Þar var hún samþykkt og í kjölfarið fylgt eftir í Háskólaráði. Hefur það því tekið Háskólaráð eitt og hálft ár að samþykkja breytingartillöguna.

Í rökstuðningi sem fylgdi upprunalegu tillögunni sem lögð var til Stúdentaráðs var einnig bent á að með því að bíða með sjúkra- og endurtektarpróf fram til maí hefði slæm áhrif á þá nemendur sem væru á námslánum. Samkvæmt reglum Menntasjóðs námsmanna eru lán ekki greidd út fyrr en nemandi hefur skilað af sér tilsettum einingafjölda. Með því að þurfa að bíða fram til maí með að fá að þreyta próf hefði því bæði andlegt og fjárhagslegt álag á viðkomandi nemendur. Margir nemendur byggju ekki yfir fjárhagslegu baklandi til að geta framfleytt sér án námslána.

Samræming á milli fræðasviða

Með breytingunni kemst á samræmi á milli allra fræðasviða innan Háskóla Íslands. Verkfræði og náttúruvísindasvið hafa um tíma haldið sjúkra- og endurtektapróf sín beint í kjölfar almennra prófa á haustönn. Hins vegar fór slík próf innan Félagsvísindasviðs fram í maí fyrir breytingu. Samkvæmt Stúdentaráði orkaði það því tvímælis að mismunandi reglur væru á milli ólíkra fræðasviða skólans. Í tillögunni frá árinu 2021 var Háskóli Íslands því hvattur til þess að auka gagnsæi og samræmingu til að tryggja gæði náms og kennslu skólans.

Breyting þessi tekur gildi þann 1. júlí 2023.