Heim Fréttir Eldarnir í Háskóla Íslands

Eldarnir í Háskóla Íslands

Kvikmyndatökulið á vegum framleiðslufyrirtækisins Netop Films var í tökum á kvikmynd í Lögbergi í síðustu viku. Kvikmyndin heitir Eldarnir: Ástin og aðrar hamfarir og er skrifuð eftir samnefndri skáldsögu Sigríðar Hagalín frá árinu 2020. 

Leikstjóri myndarinnar er Ugla Hauksdóttir en hún er meðal annars þekkt fyrir leikstjórn í þáttunum The Power, Snowfall, Hanna og Ófærð. Einnig hafa stuttmyndir hennar fengið mikið lof. 

Blaðamaður ræddi við Uglu og annað starfsfólk á setti.

Ástarþríhyrningur og eldgos

Sagan fjallar um Önnu Arnardóttur sem leikin er af Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur. Hún er eldfjallafræðingur sem starfar við Háskóla Íslands. Anna þarf að takast á við tvenns konar hamfarir á sama tíma, annars vegar náttúruhamfarir á Reykjanesskaga sem ógna öryggi höfuðborgarinnar og hins vegar innri hamfarir í eigin hjarta. „Þetta er hamfara- og ástarsaga í senn og þær spinnast saman og það verða mikil átök” segir Ugla. 

Jóhann G. Jóhannsson leikur Kristinn eiginmann Önnu og danski leikarinn Pilou Asbæk leikur ljósmyndarann Thomas Adler sem Anna verður ástfangin af. 

„Ég sá strax fyrir mér að þetta yrði mjög áhugaverð saga að sjá á hvíta tjaldinu.  Auðvitað mikil dramatík og sagan mjög myndræn. Við ætlum að reyna að bjóða upp á sjónræna veislu.”

Ævintýralegar tökur á Reykjanesi með draumateyminu

Kvikmyndin er samstarfsverkefni milli Íslands og Póllands og er tökuliðið því frá báðum löndum. Ugla segir ferlið búið að vera ótrúlega ánægjulegt og skemmtilegt. „Við erum að vinna með dásamlegu fólki, algjört draumateymi!” 

Tökurnar í háskólanum eru fyrstu innitökurnar en teymið er búið að vera mikið í útitökum á Reykjanesinu t.d. úti í Reykjanesvita, við Kleifarvatn, Grænavatn og Fagradalsfjall. Ugla segir upphaf takanna hafa verið mjög ævintýralegt og þakkar fyrir heppilegt og gott veðurfar.  

Kvikmyndasett í Lögbergi. Stúdentafréttir/Guðríður

Sagan nærri manni en áður

Ferlið hefur verið langt en handritshöfundarnir sem eru Ugla og Markus Englmair eru búin að vinna í handritinu síðan fyrir fyrsta gosið í Fagradalsfjalli. 

„Margt hefur breyst og gerst á þeim tíma og efniviðurinn nærri manni, meira en áður. Það er spennandi og líka krefjandi” að sögn Uglu. Hún segir þau hafa rætt mikið um það hvort bæta ætti í handritið því sem gerst hafi í alvöru. Síðan bætir hún við að þetta sé samt auðvitað aðlögun á bók svo þau hafi ákveðið að halda sig við efni hennar.

Eldgos í Fagradalsfjalli 2021. Stúdentafréttir/Guðríður

Biðlar til Sigríðar að skrifa um heimsfrið

Eldarnir: Ástin og aðrar hamfarir er ekki eina bók Sigríðar Hagalín sem raungerist en skáldsaga hennar Eyland fjallar til að mynda um einangrun Íslands frá umheiminum. Sú bók kom út 2016 en eins og alþjóð veit skall Covid-19 faraldurinn á hér á landi í ársbyrjun 2020 og í kjölfarið þurfti að loka landamærum.

Blaðamaður er hjartanlega sammála leikkonu á setti, Maríu Hebu, þegar hún biðlar til Sigríðar að skrifa um eitthvað fallegt og gott eins og heimsfrið.

Býst við að frumsýna eftir ár

Blaðamaður náði einnig tali af Grímari Jónssyni framkvæmdarstjóra Netop Films en hann segist vera afar þakklátur háskólanum fyrir að leyfa tökuliðinu að taka upp í Lögbergi því það sé alls ekki sjálfgefið.

Grímar býst við að áhorfendur fái að sjá Eldana: Ástir og aðrar hamfarir í kvikmyndahúsum í september 2025.