Heim Fréttir Endalaus hagvöxtur en hvað svo?

Endalaus hagvöxtur en hvað svo?

„Hver sá sem trúir því að endalaus hagvöxtur sé mögulegur er annað hvort vitleysingur eða hagfræðingur.“ Þetta á fræðimaðurinn Kenneth Boulding að hafa sagt, þótt engum hafi enn tekist að staðfesta uppruna ummælanna með vissu.

Hagfræðingar eru hins vegar miklir áhrifavaldar í okkar samfélagi og þá sérstaklega þegar kemur að stefnumörkun hins opinbera. Óbilandi trú margra þeirra á hagvexti ratar gjarnan í stefnuyfirlýsingar stjórnmálamanna, þótt fyrirbærið sé gjarnan nefnt fegurri nöfnum, svo sem „verðmætasköpun“, „framleiðniaukning“, „kaupmáttaraukning“, „betri lífskjör“ eða „aukin velsæld“. Hagfræðingar eru almennt ekkert sérstaklega hrifnir af þessari háðsglósu Kenneth Boulding, en þó eru til undantekningar:

Jon D. Erickson, prófessor í visthagfræði við Háskólann í Vermont í Bandaríkjunum, er ein þeirra undantekninga, en hann flutti erindi þann fimmtudag 29. september í Odda, undir yfirskriftinni: “Endalaus hagvöxtur en hvað svo?”. Þar vísaði prófessorinn einmitt í takmörk hagvaxtarins.

„Adam Smith var heimspekingur!“

Erickson sagði frá reynslu sinni sem hagfræðingur og lýsti því hvernig hann taldi þessa fræðigrein hafa villst af leið með því að einangrast frá öðrum fræðigreinum og þykjast tilheyra hópi raunvísinda frekar en félagsvísinda. Með því töldust hagfræðingar geta hannað stærðfræðilíkön sem áttu að lýsa gangverk markaðarins, eins og um algildar vísindalegar formúlur væri að ræða. Hann rifjaði upp hvernig einn fyrsti hagfræðingur, Adam Smith, hefði fyrst og fremst litið á sig sem heimspeking. Með því að fjarlægjast félagsvísindunum þóttust hagfræðingar geta smættað mannlega hegðun niður í einfaldar stærðfræðiformúlur.

Prófessorinn rakti sömuleiðis aðra þætti sem hann taldi vera dæmi um öfgar nútímahagfræðinnar: meðal annars áherslu hennar á hagvexti, sem hann kallar “tálsýn hagvaxtarins” (“illusion of growth”). Að hans mati kemur sú tálsýn í veg fyrir að vestræn samfélög geti tekist á við nauðsynlegar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og hruni líffræðilegrar fjölbreytni. Niðurstaða Erickson er að í heimi þar sem auðlindir eru takmarkaðar er ekki svigrúm fyrir endalausan hagvöxt, og því þurfi maðurinn nú að velja milli tveggja kosta: meðvitaður og skipulagður samdráttur í framleiðslu eða sífellt versnandi óreiða af völdum loftslagshamfara og auðlindaþurrðar.

Á ráðstefnunni kynnti prófessorinn nýjustu bók sína, “The Progress Illusion – Reclaiming Our Future from the Fairytale of Economics”, en bókin er nýkomin úr prentun og mun fara í sölu á allra næstu vikum.


Fróðlegt væri að heyra hvað hagfræðingum innan Háskóla Íslands þykir um gagnrýni prófessorsins á nútímahagfræði, en íslenskir hagfræðingar hafa gjarnan talið hagvöxtinn vera merki um heilbrigt hagkerfi, og sjaldan dregið í efa að honum séu einhver takmörk sett. Einn þeirra svarar til dæmis spurningunni “getur hagvöxtur verið endalaus?” á Vísindavefnum með þessum orðum:
“Tækni, hugviti og þekkingu eru engin takmörk sett. Það eru því engin náttúrugefin takmörk fyrir því hvað tækniþróun getur gengið langt.”


Núverandi stjórnvöld virðast heldur ekki efast um ágæti og fýsileika endalauss hagvaxtar enda byrjar stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar á þessum orðum: „Við ætlum að vaxa til meiri velsældar“, og “vöxtur og velsæld er leiðarljós ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum”.
Hagvöxtur á Íslandi mældist 4,4% í fyrra, en samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunnar jókst losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi á sama tíma um 3%.


Er hagvöxtur æskilegur hvað sem hann kostar?